Umsögn um tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak

Efni: Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak, 699. mál.

Reykjavík, 26. mars 2020

BSRB fagnar tillögu fjármála- og efnahagsráðherra um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak og tekur heilshugar undir markmið þess sem er að vinna gegn efnahagssamdrætti í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Í áætluninni eru fjölmörg verkefni sem falla undir sjö flokka. Alls er lagt til að 15 milljörðum króna verði varið í fjölbreytt verkefni sem skulu hefjast eigi síðar en 1. september 2020 og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021. Takist það ekki má flytja fjármuni milli verkefna innan einstakra flokka og jafnvel milli verkefna í mismunandi flokkum ef ljóst þykir að ekki takist að hefja verkefnin fyrir 1. apríl 2021. BSRB styður að verkefni áætlunarinnar fari sem fyrst af stað en telur að tímaramminn sé helst til þröngur með tilliti til þess að á þessari stundu er ekki vitað hversu lengi hindranir verða á samskiptum og hreyfanleika fólks vegna faraldursins, og þar með getu stofnana hins opinbera og fyrirtækja til að vinna í samræmi við áætlunina.

Fram kemur í greinagerð með tillögunni að til standi að fara í stærra fjárfestingarátak á tímabilinu 2021 til 2023. Þar verða kynnt verkefni sem krefjast lengri undirbúnings en tekið er fram að undirbúningur sumra þeirra hefjist innan þeirrar áætlunar sem þingsályktunartillagan nær til.

Í greinagerð með tillögunni segir að markmið fjárfestinga ríkissjóðs eigi að vera að styðja við eftirspurn með áherslu á framkvæmdir sem nýta innlenda framleiðsluþætti og að stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni. Til að þessum markmiðum verði náð telur BSRB nauðsynlegt að stjórnvöld móti atvinnustefnu svo að fjármagn til opinberra fjárfestinga verði nýtt með arðbærum og skilvirkum hætti.

BSRB leggur til eftirfarandi breytingar á tillögunni.

Nýsköpun, rannsóknir og skapandi greinar

Samkvæmt tillöguna á að veita um 1.750 milljónum króna í ýmsa sjóði í nýsköpunar, rannsókna og skapandi greina. BSRB styður þá ráðstöfun heilshugar en telur að auka eigi þær fjárhæðir umtalsvert sem ráðstafað verður með þessum hætti í áætluninni. Ráðstöfun til málaflokkanna er skjótvirk leið til að hækka atvinnustig. Boðað er að í næstu fjárfestingaráætlun eiga auka fjármögnun rannsókna og nýsköpunar umtalsvert. Það er mjög jákvætt en BSRB ítrekar að mun
hærri fjárhæðir þyrfti að setja í sjóðina nú og mun það gagnast t.d. atvinnulífinu, menningarlífinu og námsmönnum á komandi mánuðum.

Stafrænt Ísland og upplýsingatækniverkefni Í þessum flokki eru m.a. verkefni sem varða „hröðun á innleiðingu stafræns skrifstofuumhverfis ríkisins“. BSRB leggur til að hluta af fjármagninu úr verkefninu verði varið sérstaklega til endurmenntunar starfsfólks sem sinnir þeim störfum sem munu verða fyrir áhrifum vegna innleiðingarinnar eða til að bjóða þeim annars konar menntun og/eða störf á öðrum sambærilegum vettvangi.

BSRB leggur til að í fjárfestingaráætlun 2020-2021 verði ráðstafað fé til að hefja undirbúning að neðangreindum fjárfestingum í fjárfestingaráætlun 2021-2023.

Nýbyggingar og meiriháttar endurbætur – Almennar íbúðir

BSRB bendir á að nú gefst einstakt tækifæri til að auka fjárframlög hins opinbera til almennra íbúða. Þar með skapast fjölmörg störf á sviði mannvirkjagerðar og möguleiki til að tryggja betur húsnæðisöryggi launafólks í lægri tekjutíundum með auknu framboði af íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði. Á áætlun eru 600 íbúðir árlega innan almenna íbúðarkerfisins á tímabilinu 2020-2022. BSRB leggur til að sett verði fjármagn til aukinna stofnframlaga til að tryggja árlega fjölgun um 400 íbúðir á árunum 2021 og 2022 og 1000 íbúðir árlega frá og með þeim tíma. 

Nýbyggingar og meiriháttar endurbætur / Viðhald og endurbætur fasteigna – Heilbrigðisstofnanir og hjúkrunarheimili

Í áætluninni er gert ráð fyrir að um 400 milljónir króna fari í viðhald og endurbætur á húsnæði heilbrigðisstofnana og um 200 milljónir til hvoru tveggja byggingar hjúkrunardeildar á Húsavík og viðbyggingar Grensásdeildar Landspítala. BSRB fagnar þessum áherslum en leggur til aukið fjármagn í fjárfestingaráætlunina 2020-2021 til að undirbúa enn frekari framkvæmdir á þessu svið í fjárfestingaráætlun fyrir 2021-2023. Mikil þörf er á uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis heilbrigðisstofnana um allt land og Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Mikil undirbúningsvinna hefur þegar verið unnin en fjármögnun vantar. Þá er mikilvægt að tryggja fjármagn í fjárfestingar til samræmis við „Áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til 2023“. 

Samgöngumannvirki og orkuskipti - Borgarlína

Í áætluninni eru m.a. verkefni sem lúta að inniviðauppbyggingu til að flýta rafvæðingu bílaleiguflotans, þungaflutninga og hafna. Einnig á að fara í fjárfestingar sem nauðsynlegar eru vegna eyðileggingar innviða og landbrots í þeim vályndu veðrum sem geisað hafa í vetur. Þá eru ýmis verkefni á áætlun sem miða að því að aðlaga inniviði að áhrifum loftslagsbreytinga í framtíðinni. BSRB fagnar þessum áherslum en telur að mun lengra þurfi að ganga til að draga
úr losun og aðlaga innviði og landvarnir að þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða á loftslagi í framtíðinni. BSRB væntir þess að frekari fjárfestinga á þessu svið sé að vænta í næstu áætlun.

BSRB leggur til að fjármagni verði varið í að skipuleggja hröðun á uppbyggingu Borgarlínu í þessari áætlun og fjármagni varið í þær fjárfestingar í næstu fjárfestingaráætlun. Borgarlína mun auðvelda okkur að ná markmiðum um samdrátt í losun fram til 2030. Hún er einnig mikilvæg samgöngubót fyrir allt höfuðborgarsvæðið og lífskjarabót fyrir almenning á svæðinu.

Menntaátak í heilbrigðis-, mennta- og félagskerfinu 

BSRB leggur til að veitt verði fjármagn í þessari áætlun til að hefja undirbúning að menntaátaki og að í fjárfestingaráætlun fyrir árin 2021-2023 verði lögð áhersla á fjárfestingu í menntun í greinum innan heilbrigðis-, mennta- og félagskerfisins. Margar greinanna búa nú þegar við alvarlegan skort á starfsfólki eða fyrirséð er að það verði erfitt að tryggja mönnun í til framtíðar. Í þessu sambandi má nefna starfsstéttir eins og t.d. hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, skólaliða, leik- og grunnskólakennara, stuðningsfulltrúa á öllum skólastigum, félagsliða, tómstunda- og félagsmálafræðinga og frístundaleiðbeinendur. Listinn er á engan hátt tæmandi. Menntaátakið verði skipulagt í samstarfi við stéttarfélög opinberra starfsmanna. 

BSRB styður þingsályktunartillögu um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak með ofangreindum breytingum.

Fyrir hönd BSRB

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?