Umsögn um tillögu til þingsályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um greiningu á samúðarþreytu og tillögur að úrræðum, 241. mál

Reykjavík, 18. febrúar 2022

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreinda þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það markmið að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum, svo sem starfsfólks heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og í leik-, grunn- og framhaldsskólum o.fl.

Félagsmenn aðildarfélaga BSRB starfa margir hverjir innan heilbrigðiskerfisins, hjá lögreglu, hjá slökkviliðum og innan menntakerfisins. Þetta eru þær starfsstéttir sem helst stafar ógn af samúðarþreytu. Bandalagið fagnar því þingsályktunartillögunni og telur tímabært að farið sé í rannsóknir hér á landi til þess að greina vandann og að í kjölfarið verði settar fram tillögur að úrræðum fyrir umræddan hóp starfsmanna.

BSRB hefur ítrekað kallað eftir því að gripið verði til fyrirbyggjandi aðgerða vegna langtímaáhrifa álags vegna heimsfaraldursins með því að tryggja fólki hvíld og endurheimt ásamt ráðgjöf og stuðningi frá sérfræðingum vegna hættu á sjúklegri streitu og kulnun. Framlínufólk hefur búið við viðvarandi aðhaldsaðgerðir ásamt miklu og vaxandi álagi til fjölda ára. Þetta viðvarandi álag hefur aukist verulega vegna COVID-19. Þegar faraldurinn verður genginn yfir bíður þeirra að snúa aftur til þess álags sem fylgir þeirra daglegu störfum í starfsumhverfi sem einkennist af undirmönnun, óheilbrigðu vinnuálagi og viðvarandi álagskröfu. Þessu hefur ekki verið sinnt nema að óverulegu leyti.

BSRB hefur einnig, frá upphafi faraldursins, lagt ríka áherslu á að framlínustarfsfólki verði greitt sérstaklega fyrir aukið álag í starfi. Í fjáraukalögum í apríl 2020 var veitt fjárheimild sem nemur einum milljarði króna til að greiða um 3.000 manns sérstakar álagsgreiðslur. Á síðari hluta ársins 2020, árið 2021 og það sem af er yfirstandandi ári hefur hins vegar ekki komið til frekari fjárheimilda til að sýna raunverulegan skilning á starfsaðstæðum launafólks sem hefur tekið á sig hitann og þungann af því álagi sem heimsfaraldur hefur haft í för með sér.

BSRB ítrekar þá kröfu að starfsfólki verði umbunað fjárhagslega fyrir sitt mikilvæga framlag til samfélagsins á fordæmalausum tímum. Þá vill BSRB vekja athygli velferðarnefndar Alþingis á því að framlínustarfsfólki hjá sveitarfélögunum hefur ekki verið greitt sérstakar álagsgreiðslur vegna faraldursins.

Hvað efni þingsályktunartillögunnar varðar þá er BSRB reiðubúið að taka sæti í starfshópnum, verði eftir því óskað.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?