Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019, þingskjal 1284—764. mál
Reykjavík, 8. júlí 2016
BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016-2019. Bandalagið styður þær tillöguna en telur mikilvægt að eftirfarandi verði bætt við áætlunina.
BSRB leggur til að bætt verði við kafla um jafnrétti á vinnumarkaði að svonefndar mismunatilskipanir verði innleiddar með setningu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna sem byggja tilskipunum 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000, um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi og tilskipun 2000/43/EB frá 29. júní 2000, um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis. Það er löngu tímabært að Ísland leggi áherslu á jafnrétti í víðari skilningu en eingöngu jafnrétti kynjanna ef það vill ganga í takt við alþjóðasamfélagið. Til að tryggja að svo megi verða verður að setja almenna löggjöf um bann við mismunun á grundvelli fleiri ástæðna.
Þá leggur bandalagið til að jafnréttisáætlunin geri ráð fyrir gerð aðgerðaráætlunar til að stemma stigu við kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Jafnframt er brýnt að rannsaka kynbundna og kynferðislega áreitni á íslenskum vinnumarkaði. Rannsóknir þar um eru af mjög skornum skammti en þær sem hafa verið framkvæmdar og taka til tiltekinna starfsstétta s.s. starfsfólks í þjónustustörfum gefa tilefni til að ætla að brýn þörf sé á auknum rannsóknum og vitundavakningu. Í rannsókn Steinunnar Rögnvaldsdóttur frá 2015 kemur fram að 41% starfsfólks í þjónustustörfum hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Einnig hefur verið gerð rannsókn á starfsaðstæðum lögreglumanna en um þriðjungur lögreglukvenna höfðu orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt, sbr. rannsókn Finnborgar Salóme Steinþórsdóttur frá 2013. Þá upplifa t.d. karlmenn í „kvennastörfum“ og konur í „karlastörfum“ mikla kynbundna og kynferðislega áreitni sem mikilvægt er að uppræta. Nánar má lesa um stöðuna á íslenskum vinnumarkaði hvað þetta varðar í skýrslu um Stöðu kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði – staðreyndir og staða þekkingar sem gerð var fyrir aðgerðarhóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til þess að vinna að launajafnrétti kynjanna.
Jafnframt saknar bandalagið þess að hvergi sé gert ráð fyrir aðgerðum í þágu samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þar er af nægu að en til úrbóta væri t.d. að velferðarráðuneyti bæri ábyrgð á því að skipa starfshóp sem tæki til umfjöllunar árekstra milli leik- og grunnskóla og atvinnulífs, s.s. vegna sumarlokana, vetrarfría og starfsdaga í skólum. Í starfshópnum ættu sæti hagsmunaaðilar s.s. fulltrúar velferðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar sveitarfélaganna, skóla. Þá væri einnig hægt að veita aukna fræðslu til atvinnurekenda um sveigjanleika og setningu fjölskyldustefnu o.s.frv.
Þá saknar bandalagið þess að ekki sé lögð meiri áhersla á aukna jafnréttisþekkingu kennara og starfsfólks á grunn- og framhaldsskólastigi.
Fyrir hönd BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
lögfræðingur BSRB