Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um breytingu á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022, 968. mál
Reykjavík, 28. ágúst 2020
BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um breytingu á fjármálastefnu fyrir árin 2018-2022 vegna þess gríðarlega efnahagssamdráttar sem fylgir heimsfaraldrinum sem veldur Covid-19 og viðbragða við honum.
Breytt fjármálastefna gerir ráð fyrir neikvæðri afkomu hins opinbera á tímabilinu 2020-2022. Þó er gert ráð fyrir að það dragi úr halla á tímabilinu og að hann verði á bilinu 7,5-10,5 prósent af VLF árið 2022. Í stefnunni er gert ráð fyrir óvissusvigrúmi til lækkunar heildarafkomu sem nemur 2 – 3% af vergri landsframleiðslu árlega. Það er skynsamlegt enda óvissan framundan óvenju mikil.
Í stefnunni er svigrúm laga um opinber fjármál nýtt til að víkja frá skilyrðum um jákvæðan heildarjöfnuð yfir fimm ára tímabil, heildarskuldir undir 30% af vergri landsframleiðslu og árlegri uppgreiðslu 5% skulda umfram 30% viðmiðið. BSRB telur það einu raunhæfu leiðina í ríkisfjármálum við þær aðstæður sem nú eru uppi. Augljóst er að það mun reyna mjög á ríkissjóð í því efnahagsástandi sem nú hefur skapast, hér á landi og á heimsvísu. Hlutverk ríkissjóðs verður fyrst of fremst að tryggja afkomu þeirra sem verst verða úti vegna atvinnumissis eða fjarveru frá vinnu vegna sóttvarna, stuðla að sköpun starfa og aukinni eftirspurn. Með aukinni eftirspurn munu fleiri fyrirtæki komast í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika og fleiri einstaklingar halda vinnunni.
BSRB fagnar tveimur af þeim þremur markmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett sér til að komast út úr efnahagsástandinu og fram koma í greinagerð með ályktuninni. Þau fela í sér að opinberum fjármálum verði beitt gegn samdrættinum og að sköpuð verði verðmæt störf til að byggja undir velsæld til framtíðar. Hins vegar lýsir BSRB yfir áhyggjum af þriðja markmiðinu sem felur m.a. í sér lækkun skulda hins opinbera til að tryggja sjálfbærni opinberra fjármála. Þetta markmið endurspeglast að nokkur leyti í greinagerð með tillögunni. Þar er slegið í og úr varðandi aðahaldsstig opinberra fjármála á komandi árum. BSRB leggur áherslu á að með skynsamlegri fjárfestingarstefnu, öruggri afkomu allra og metnaðarfullum útgjöldum til mennta-, félags- og heilbrigðismála er hægt að tryggja velsæld samfélagsins og verðmætasköpun til lengri tíma. BSRB hvetur ríkisstjórnina til að setja sér það markmið að vaxa út úr kreppunni með því að beita afli ríkisfjármála með markvissum hætti.
Fyrir hönd BSRB
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur