Umsögn um tillögu til þingsályktunar um atvinnulýðræði

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um atvinnulýðræði, 40. mál

Reykjavík, 11. nóvember 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar þingsályktunartillögu þess efnis að félags- og barnamálaráðherra skipi starfshóp sem geri tillögu um hvernig auka megi lýðræði á vinnustöðum. Samkvæmt tillögunni mun BSRB eiga sæti í hópnum, nái hún fram að ganga og komi til framkvæmdar.

Aukið lýðræði og gagnsæi á vinnustöðum er ávallt af hinu góða, en t.a.m. má benda á að nú eru vinnustaðir innan ríkis og sveitarfélaga í virku samtali um það hvaða leið verði farin við styttingu vinnuvikunnar, sem aðildarfélög BSRB sömdu um í kjarasamningum sem undirritaðir voru fyrr á þessu ári. Þar eru það starfsfólk og stjórnendur sem koma sér saman um það hvernig stytting verði útfærð á hverjum vinnustað fyrir sig, á grundvelli lýðræðislegs og gagnsæs samtals.

BSRB styður því tillöguna og lýsir bandalagið sig reiðubúið til þátttöku í starfshópnum, ef til þess kemur.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?