Umsögn um frumvarp um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví

Umsögn BSRB um frumvarp um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví

Reykjavík, 18. mars 2020

BSRB hefur tekið til umsagnar mál nr. 667, lagafrumvarp um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

BSRB fagnar frumkvæði stjórnvalda í þessu máli og telur mikilvægt að frumvarpið verði að lögum sem fyrst. BSRB og aðildarfélög þess hafa undanfarna daga móttekið fjölmargar fyrirspurnir vegna Covid-19 faraldursins, og snúa margar þeirra að réttindum starfsmanna í sóttkví.

BSRB hefur ekki athugasemdir við þær greinar frumvarpsins sem liggja fyrir. Þó telur BSRB rétt að bætt verði við heimild til að greiða laun til starfsmanns sem þarf að vera heima vegna þess að barn viðkomandi er í sóttkví. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur einnig bent á þetta atriði. Nú þegar eru margir foreldrar í þessari stöðu og kjarasamningsákvæði um rétt til launaðra fjarvista vegna veikinda barna ná ekki til þessarar stöðu í öllum tilvikum.

Þá vill BSRB einnig vekja athygli á stöðu foreldra nú þegar skólastarf víðast hvar er skert. Foreldrar eiga misauðvelt með að vinna í fjarvinnu heiman frá sér og fer það algjörlega eftir því hvaða störfum þeir sinna. BSRB hefur talað fyrir því að það sé samfélagsleg ábyrgð allra, þar á meðal fyrirtækja og stofnana, að virða tilmæli stjórnvalda í þessu ástandi og hefur beint því til stofnana að veita starfsmönnum sveigjanleika í þessum aðstæðum. BSRB leggur áherslu á að veittur sé stuðningur við fjölskyldur sem þurfa að vera frá vinnu vegna samkomubanns og beinir því til stjórnvalda að koma til móts við foreldra sem njóta ekki þess sveigjanleika að geta unnið heiman frá sér. Þeim tilmælum hefur einnig verið beint til fólks að börn eigi ekki að vera hjá ömmum sínum og öfum á þessum tímum, til þess að vernda viðkvæma hópa. Staðan í samfélaginu breytist dag frá degi og ný álitaefni koma sífellt upp og munu halda áfram að koma upp. Til þess að tryggja öryggi samfélagsins, og sérstaklega viðkvæmra hópa, er mikilvægt að afkoma launafólks sé tryggð, svo fólk veigri sér ekki við að fylgja tilmælum yfirvalda.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?