Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, (hækkun starfslokaaldurs), 129. mál.
Reykjavík, 31. október 2019
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (hér eftir stml.) sem felur í sér hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna úr 70 ára í 73 ára. Um endurflutt frumvarp er að ræða og hefur bandalagið áður sent nefndasviði Alþingis umsögn um málið. Þar lýsti bandalagið yfir stuðningi við efni frumvarpsins og hefur sú afstaða ekki breyst.
Nefnd um endurskoðun laga um almannatryggingar nr. 100/2007 birti skýrslu í febrúar árið 2016 og lagði til að tiltekin ákvæði stml. yrðu endurskoðuð með það að markmiði að opinberum starfsmönnum yrði heimilt að vinna allt til 75 ára aldurs. BSRB átti fulltrúa í nefndinni og styður þá tillögu heilshugar. Mikilvægt er að um heimild sé að ræða, og opinberum starfsmönnum þ.a.l. eftir sem áður gert heimilt að láta af störfum fyrr kjósi þeir svo.
Um starfslokaaldur starfsmanna sveitarfélaga er fjallað í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB. Þrátt fyrir að bandalagið styðji markmið þessa frumvarps, sem felur í sér hækkun starfslokaaldurs ríkisstarfsmanna, er lögð áhersla á að slík endurskoðun fari fram í samráði við heildarsamtök opinberra starfsmanna og að unnið verði að breytingum á kjarasamningum við sveitarfélög samhliða breytingum á lögum um starfsmenn ríkisins. Þannig er að hægt að tryggja jöfn réttindi opinberra starfsmanna, óháð því hvort þeir starfi hjá ríki eða sveitarfélögum.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur