Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (skilvirkari framkvæmd), 812. mál
Reykjavík, 26. maí 2020
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar.
Eins fram kemur í frumvarpinu var haft samráð við bandalagið við samningu þess í félagsmálaráðuneytinu og tók það nokkrum breytingum eftir athugasemdir heildarsamtaka launafólks. BSRB vill þó koma á framfæri athugasemdum sínum í ljósi þess hversu mikið aðstæður hér á landi hafa breyst eftir að samráðið var viðhaft, en það var áður en efnahagslegra áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru fór að gæta hér á landi.
BSRB gerir ekki efnislegar athugasemdir við frumvarpið en vill fjalla stuttlega um 8. gr., sem fjallar um viðurlög þess að láta hjá líða að tilkynna um vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur.
Sá sem hefur verið skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun og verður uppvís að því að starfa á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiðslur frá stofnuninni, án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit sé hætt, mun þurfa að starfa í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði til þess að eiga aftur rétt til atvinnuleysisbóta. Þá skal hann jafnframt endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.
Um er að ræða strangt viðurlagaákvæði sem ætlað er að taka við af 2. málsl. 1. mgr. 60. gr. laganna, sem hefur ekki talið virka sem skyldi. Í ljósi reynslu af ákvæðinu er nú talið nauðsynlegt að taka það til endurskoðunar og setja nýja lagagrein, 59. gr. a, sem felur í sér hreina hlutlæga ábyrgð atvinnuleitanda sem ekki tilkynnir um tilfallandi vinnu.
BSRB er í sjálfu sér ekki mótfallið því að ákvæðið feli í sér hlutlæga ábyrgð en bandalagið gerði athugasemdir við ákvæðið þegar það var til samráðs í ráðuneytinu og var því þá breytt talsvert. Að mati bandalagsins er lykilatriði að þeir einstaklingar sem þiggja atvinnuleysisbætur þekki þær reglur sem í gildi eru hverju sinni, hverjar þeirra skyldur eru gagnvart Vinnumálastofnun og Atvinnuleysistryggingasjóði og hverjar afleiðingarnar eru ef þær reglur eru brotnar.
Á fyrstu vikum skráningar hjá stofnuninni eru haldin námskeið og fræðslufundir þar sem atvinnuleitendum eru kynntar þessar reglur og því fagnar bandalagið því að ákvæðið sé ekki virkt á fyrstu fjórum vikum skráningar hjá stofnuninni. Það er jafnframt skýrt í greinargerð með ákvæðinu að það taki einungis til þeirra sem hafa verið upplýstir með fullnægjandi hætti um þau viðurlög sem ákvæðið felur í sér. Með vísan til þess hvernig orðalag ákvæðisins breyttist í meðferð ráðuneytisins gerir bandalagið ekki athugasemdir við það nú.
Að lokum leyfir BSRB sér að benda á að lög um atvinnuleysistryggingar eru frá árinu 2006 og á þeim 14 árum sem liðið hafa frá setningu þeirra hefur íslenskt samfélag og íslenskur vinnumarkaður tekið miklum breytingum. Í millitíðinni hefur landið farið í gegnum efnahagskreppu í kjölfar bankahruns sem fylgdi mikið atvinnuleysi og nú er glímt við áður óþekkta kórónuveiru, en ekki er fyrirséð hversu mikil áhrif hún mun hafa á efnahag landsins. Það er þó talið líklegt að atvinnuleysi verði töluvert næstu misserin vegna þeirra áhrifa.
Sem viðbragð við þeirri stöðu hefur BSRB hvatt stjórnvöld til þess að hækka atvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði. Slíkar aðgerðir eru til þess fallnar að stuðla að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Þá treystir bandalagið því að heildar endurskoðun laga um atvinnuleysistryggingar sé á næsta leiti, eins og lofað hefur verið.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur