Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og lögum um greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum kórónuveitufaraldurs, nr. 155/2020 (framlenging úrræða o.fl.), 775. mál.
Reykjavík, 17. maí 2021
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til breytinga á atvinnuleysistryggingum og þakkar fyrir að fá tækifæri til að veita álit sitt á því. BSRB gerir hins vegar alvarlegar athugasemdir við það að bandalagið hafi ekki verið hluti af samráðsferli stjórnvalda við vinnslu frumvarpsins. Í greinagerð kemur fram að haft hafi verið samráð við ASÍ og SA en önnur heildarsamtök launafólks voru ekki kölluð að borðinu. Tæplega 700 manns í aðildarfélögum BSRB eru á atvinnuleysisskrá og hátt hlutfall þeirra vegna starfa í atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu og á Suðurnesjum.
Með frumvarpinu er verið að bregðast við því alvarlega og langvarandi atvinnuleysi sem nú ríkir hér á landi vegna heimsfaraldursins og viðbragða gegn honum. Frá því í mars 2020, þegar sóttvarnaraðgerðir fóru að hafa afgerandi áhrif á atvinnulíf á Íslandi, hefur BSRB hvatt til öflugri stuðnings í atvinnuleysistryggingakerfinu og atvinnusköpunar. Tregða hefur verið við að lengja atvinnuleysistímabilið og hækka atvinnuleysisbætur. Þetta þýðir að þessi afmarkaði en stóri hópur er að taka á sig miklu mun meiri efnahagslegar byrðar en aðrir vegna faraldursins.
Þessi umsögn fjallar um fjölda og stöðu atvinnulausra, nauðsyn þess að skapa störf, hækka atvinnuleysisbætur, framlengja hærri atvinnuleysisbætur vegna barna og lengja bótatímabilið. Þá verður fjallað um þær greinar frumvarpsins sem lúta að breytingum á atvinnuleysislöggjöfinni auk umræðu um fyrirhugaða breytingu á hlutabótum atvinnuleysistryggingakerfisins.
Atvinnuleysi stærsta áskorunin
Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands gerir ráð fyrir miklu atvinnuleysi næstu ár. Á yfirstandandi ári er gert ráð fyrir 7,8 prósent atvinnuleysi og að það lækki síðan hægt á næstu árum en verði enn um 4,3 prósent árið 2026 samkvæmt mati Hagstofunnar. Í þessu samhengi er rétt að benda á að árlegt atvinnuleysi á árunum 2000-2019 mældist að meðaltali um 3,4 prósent hjá Vinnumálastofnun. Mjög mikilvægt er að bregðast við þessari alvarlegu stöðu af krafti. BSRB fagnar átaki stjórnvalda sem ætlað er að skapa 7.000 störf út árið 2021 fyrir atvinnulausa. Hins vegar dugir þessi aðgerð ein og sér ekki til enda voru 20.003 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í apríl 2021 og 4.268 atvinnulausir í minnkuðu starfshlutfalli og 6.200 manns sem hafa verið án atvinnu lengur en 12 mánuði. Heildaratvinnuleysi var 11,5 prósent í apríl samkvæmt Vinnumálastofnun.
BSRB leggur áherslu á að stjórnvöld bregðist við atvinnuleysinu og stöðu atvinnulausra af miklum þunga. Mikilvægt er að stjórnvöld útfæri frekari aðgerðir til að skapa störf sem fleyta fólki sem hefur misst atvinnuna og hagkerfinu í gegnum þann efnahagsvanda sem heimsfaraldurinn hefur valdið. Auk þess þarf að hækka atvinnuleysisbætur og lengja atvinnuleysisbótatímabilið.
Í kreppu sem þeirri sem nú ríður yfir verður hið opinbera að skapa störf til að sporna við atvinnuleysi. Á síðustu misserum hefur heilbrigðiskerfið sannað sig sem grunnstoð samfélagsins ásamt menntakerfi, félagsþjónustu og almannavörnum sem leika lykilhlutverk í að tryggja lífsgæði landsmanna og framleiðslugetu hagkerfisins. Það hefur verið mikið álag á opinberu kerfunum og starfsfólki þeirra, ekki síst framlínufólki, vegna heimsfaraldursins.
BSRB bendir á að það er hægt að skapa góð störf, bæði tímabundið og til lengri tíma, í heilbrigðiskerfinu, félags- og velferðarþjónustu, skólakerfinu og í löggæslu. Mjög mikilvægt er að styrkja þessi samfélagslega mikilvægu kerfi til að forða starfsfólki frá alvarlegum afleiðingum þess álags sem faraldurinn hefur valdið og til að veita mikilvæga þjónustu til barna, aldraðra og þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu. BSRB hvetur ríkisstjórnina og Alþingi til að vera framsýn og efla opinbera þjónustu á þessum víðsjárverðu tímum í stað þess að horfa í aurinn og henda krónunni.
Hækkun atvinnuleysisbóta er nauðsynleg og skynsamleg
Það er skynsamleg hagstjórn að hækka atvinnuleysisbætur við þær efnahagsaðstæður sem nú ríkja. Í greinagerð með fjármálaáætlun (627. mál) er einmitt bent á að jaðarneysluhneigð sé hærri hjá lágtekjuheimilum, heimilum sem hafa ekki aðgang að lausum eignum og heimilum sem orðið hafa fyrir mestum skaða í kjölfar kreppunnar. Hækkun atvinnuleysisbóta mun því skila sér í aukinni einkaneyslu og þar með hagvexti. Í bráðabirgðauppgjöri Hagstofu Íslands fyrir hið opinbera árið 2020 kemur einmitt fram að einkaneysla umfram spár hafi átt þátt í því að hallarekstur ríkissjóðs og sveitarfélaga varð minni en áætlað var og efnahagssamdráttur því minni en spár gerður ráð fyrir, eða 6,6 prósent af VLF samanborið við 8,6 prósent samdrátt sem fyrri fjármálaáætlun gerði ráð fyrir. BSRB hvetur til hækkunar atvinnuleysisbóta sem mun stuðla að hagvexti og það sem ekki er síður mikilvægt, draga úr þeim byrðum sem fólk án atvinnu hefur borið umfram aðra vegna faraldursins.
Huga þarf sérstaklega að barnafjölskyldum
BSRB vekur athygli á því að sérstakt ákvæði um viðbót við atvinnuleysisbætur vegna barna þarf að framlengja. Að jafnaði fær fólk greitt sem nemur 4 prósent af grunnbótum með hverju barni undir 18 ára aldri en það var hækkað tímabundið í 6 prósent. Ákvæðið gildir aðeins til 31. desember 2021 en mikilvægt er að framlengja það út næsta ár til að tryggja betur velferð barna í fjölskyldum sem hafa orðið fyrir atvinnumissi vegna heimsfaraldursins.
Í nýútkominni skýrslu UNICEF á Íslandi um Réttindi barna á Íslandi er bent á að erfiðar efnahagsaðstæður valdi auknum efnislegum skorti meðal barna. Skýrslan byggir á gögnum frá 2009, 2014 og 2018 og sýnir að staða barna var góð í alþjóðlegum samanburði árið 2018 fyrir utan þátttöku í tómstundum. Samanburður við fyrri ár sýnir að hlutfallslega færri börn eiga kost á tómstundum en árið 2009. UNICEF hvetur stjórnvöld til að huga vel að langtímaaðgerðum gegn neikvæðum áhrifum COVID-19 á börn. Að mati BSRB eru hækkun atvinnuleysisbóta, framlenging á hærri atvinnuleysisbótum vegna barna og lenging bótatímabilsins hluti af þeim aðgerðum sem mikilvægar eru til að vinna gegn efnislegum skorti barna á Íslandi.
Lengja verður bótatímabil atvinnuleysistrygginga
BSRB minnir á að í kjölfar hruns fjármálakerfisins haustið 2008 var tímabil atvinnuleysistrygginga lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur. Árið 2014 var tímabil atvinnuleysisbóta stytt í 2,5 ár, án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Spár um atvinnuleysi á næstu árum sýna að það mjög mikilvægt að lengja réttindatímabilið tímabundið í fjögur ár. Fyrir því eru þrjár ríkar ástæður. Í fyrsta lagi tryggir það betur afkomu þeirra sem eru án atvinnu, í öðru lagi dregur það úr þeirri óvissu sem fólk sem misst hefur lífviðurværi sitt vegna heimsfaraldursins býr við og í þriðja lagi léttir það á sveitarfélögunum sem tryggja fólki, að uppfylltum ákveðnum ströngum skilyrðum, fjárhagsaðstoð. Útgjöld til fjárhagsaðstoðar hafa hækkað mikið vegna efnahagsástandsins og munu aukast enn frekar verði tímibil réttinda til atvinnuleysistrygginga ekki lengt.
Um fjárhagsaðstoð gilda ströng skilyrði um tekju- og eignamörk og því fá langt í frá allir sem missa bótarétt sinn fjárhagsaðstoð. Það eru aðeins þeir allra verst stöddu sem fá þennan eina félagslega stuðning sem er í boði fyrir fólk í þessum aðstæðum. Hún er þó aðeins hugsuð sem tímabundin aðstoð og dugir engan veginn til framfærslu til lengri tíma. Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um hvernig ráðstöfunartekjur lækka þegar fólk þarf að reiða sig alfarið á fjárhagsaðstoð þegar rétti til atvinnuleysisbóta sleppir. Miðað er við fullan rétt í Reykjavík og Reykjanesbæ og miðað við einstætt foreldri, einstakling sem leigir með öðrum og hjón án barna.
Af myndinni má sjá að fallið í ráðstöfunartekjum er gríðarlegt frá atvinnuleysisbótum til fjárhagsaðstoðar. Öllum má vera ljóst að forða verður sem flestum frá því að lenda í þessari aðstöðu með lengingu réttindatímabils til atvinnuleysisbóta. Í þessu samhengi er einni rétt að benda á að atvinnuleysi á Suðurnesjum var 21,6 prósent í apríl 2021 og var fjórða hver kona án atvinnu og fimmti hver karl.
Í nýlegri rannsókn Vörðu – Rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins, á meðal félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB, kemur fram að rúmlega helmingur atvinnulausra félagsmanna átti erfitt með að láta enda ná saman. Atvinnulausir eru líka mun líklegri til að þurfa að leita til sveitarfélaga eða vina og ættingja eftir fjárhagsaðstoð, þiggja aðstoð hjálparsamtaka eða fá mataraðstoð. Rúmlega 22 prósent atvinnulausra félagsmanna skortir efnisleg gæði miðað við 5,5 prósent launafólks og 23 prósent atvinnulausra töldu andlega heilsu sína slæma samanborið við 7 prósent launafólks. Niðurstöðurnar sýna að fólk án atvinnu býr við mun þrengri efnahag en launafólk og geldur fyrir með andlegri heilsu sinni. BSRB krefst þess að atvinnuleysisbætur verði hækkaðar og að fólki á atvinnuleysisskrá verði boðin viðeigandi geðheilbrigðisþjónusta, innan greiðsluþátttökukerfis sjúkratrygginga.
Um einstaka greinar frumvarpsins
Í 2. grein frumvarpsins er lagt til að réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta í sex mánuði í stað þriggja verði framlengdur til 1. febrúar 2022 en að óbreyttur fellur ákvæðið úr gildi 1. október næstkomandi. BSRB styður þessa breytingu en telur þó skynsamlegt að framlengja ákvæðið til 1. júní 2022 enda má gera ráð fyrir stopulum efnahagsbata framundir sumarið 2022.
Í 3. grein er lagt til að þeir sem hafa verið samfellt án atvinnu í 14 mánuði eða lengur hinn 1. maí 2021 fái 100.000 króna styrk í samræmi við það tryggingahlutfall sem greiðslur atvinnuleysisbóta hans á tímabilinu miðuðust við. BSRB styður að verið sé að styðja sérstaklega við þann hóp fólks sem var án atvinnu áður en atvinnuleysisáhrifa vegna heimsfaraldursins tók að gæta. Hins vegar mætir þessi aðgerð með engu móti kröfu BSRB um hækkun atvinnuleysisbóta. Slík hækkun myndi ná til allra á atvinnuleysisskrá og auðveldar fólki að ná endum saman á meðan þetta erfiða atvinnuástand varir.
Þegar ríkisstjórnin tilkynnti um frekari aðgerðir vegna efnahagsagsástandsins þann 30. apríl sl. var boðað að breyta ætti hlutabótaleiðinni úr atvinnuleysistryggingum fyrir fólk í lækkuðu starfshlutfalli í endurráðningarstyrk til fyrirtækja. Til stendur að innleiða þessa aðgerð með reglugerð. BSRB telur að viðhafa hefði átt samráð við heildarsamtök launafólks hvað þetta varðar og gagnrýnir hversu hratt málið var unnið.
Að lokum
BSRB styður frumvarpið en leggur til enn frekari framlengingu á tímabili sex mánaðar réttar til tekjutengdra atvinnuleysisbóta, almennrar hækkunar atvinnuleysisbóta, lengingu bótatímabilsins og framlengingu á auknum rétti til greiðslna vegna barna út árið 2022.
Fyrir hönd BSRB
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur