Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 (tekjutengdar bætur), 300. mál

Reykjavík, 26. nóvember 2020

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp þar sem lagt er til að bráðabirgðaákvæði XVIII í lögum um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 verði breytt svo heimilt verði að greiða þeim sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins tekjutengdar atvinnuleysisbætur í allt að sex mánuði, hafi þeir ekki þegar nýtt sér rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á yfirstandandi bótatímabili fyrir 1. júní 2020.

Í september sl. voru samþykkt á Alþingi lög um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru (frekari aðgerðir vegna vinnumarkaðar), nr. 112/2020. Hluti af þeim aðgerðum var að lengja tekjutengdar atvinnuleysisbætur tímabundið úr allt að þremur mánuðum í allt að sex mánuði. Í lögunum var gert ráð fyrir að lengingin tæki til þeirra sem nýttu rétt sinn til tekjutengdra bóta þegar lögin tóku gildi í september 2020, sem og þeirra sem koma inn í kerfið eftir þann tíma á nýju bótatímabili. Samkvæmt lögunum náði lengingin því ekki yfir þá sem voru búnir að nýta rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta á yfirstandandi bótatímabili fyrir september 2020.

Með frumvarpinu er lagt til að þessu verði breytt með þeim hætti að miðað verði við þá einstaklinga sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og ekki voru búnir að nýta rétt sinn til tekjutengdra atvinnuleysisbóta fyrir 1. júní 2020, í stað þess að miða úrræðið við þá sem nýttu rétt sinn til tekjutengdra bóta þegar fyrrnefnd lög tóku gildi í september sem og þá sem koma inn í kerfið eftir þann tíma á nýju bótatímabili. Þessi breyting veldur því að lenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta mun nýtast fleiri einstaklingum og þar með fleiri fjölskyldum, enda var atvinnuleysi orðið töluvert mikið fyrir 1. september á þessu ári.

BSRB fagnar því vissulega að framangreint tímamark sem lenging tekjutengdra atvinnuleysisbóta nær yfir verði fært framar, svo úrræðið nýtist fleiri einstaklingum á atvinnuleysisskrá. Þó telur BSRB ákveðið ójafnræði falið í því að miða úrræðið við tiltekna dagsetningu og leggur því til að sex mánaða tekjutenging muni ná til allra þeirra sem voru á atvinnuleysisbótaskrá þegar úrræðið tók gildi og þeirra er koma inn í kerfið eftir þann tíma á nýju bótatímabili. Í því felst jafnræði, enda standa þeir einstaklingar sem nú eru án atvinnu frammi fyrir fordæmalausri kreppu sem veldur því að virkilega erfitt ef ekki nær ómögulegt erað útvega sér atvinnu. Í því sambandi skiptir í raun ekki máli hvort viðkomandi missti atvinnu sína vegna COVID-19 heimsfaraldursins eða áður en hann kom til, og því er eðlilegt að allir þessir aðilar sitji við sama borð þegar kemur að lengd tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta að mati BSRB.

Með vísan til framangreinds leggur BSRB því til að sex mánaða tekjutenging atvinnuleysisbóta nái til allra þeirra sem voru á atvinnuleysisbótaskrá hinn 1. september sl. og þeirra er koma inn í kerfið eftir þann tíma á nýju bótatímabili.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?