Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (lenging á rétti til fæðingarorlofs)
Reykjavík, 2. desember 2019
BSRB lýsir yfir mikilli ánægju með að loksins eigi að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði, en bandalagið hefur talað fyrir breytingum á fæðingarorlofskerfinu, m.a. lengingu orlofs, um langan tíma. Tók bandalagið m.a. þátt í vinnu starfshóps um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum sem skilaði skýrslu til ráðherra 2016 og er byggt á við samningu þessa frumvarps. BSRB skilaði umsögn um frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda þann 11. nóvember sl. Töluverður fjöldi umsagna barst og farið er yfir þær umsagnir í greinargerð með frumvarpi þessu. Þó er frumvarpið efnislega óbreytt, og telur BSRB því rétt að ítreka þau sjónarmið sem komu fram í umsögn bandalagsins til félagsmálaráðuneytisins.
BSRB er þeirrar skoðunar að réttur til fæðingarorlofs eigi að skiptast jafnt á milli foreldra. Markmið laga um fæðingar- og foreldraorlof eru tvíþætt, annars vegar að tryggja samvistir barna við foreldra sína og hins vegar að gera konum og körlum kleift að samræma fjölskylduog atvinnulíf. Tölur frá Fæðingarorlofssjóði sýna að mæður nýta nánast allan sameiginlega réttinn og feður þann tíma sem þeim er úthlutað.[1] Tölur frá hinum Norðurlöndunum segja sömu sögu.[2]
Fæðingarorlofskerfið er hornsteinn jafnréttis, bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu. Jöfn skipting orlofs mun stuðla að því að fjarvera foreldra frá vinnumarkaði vegna barneigna verði jafn löng og áhrifin af tímabundnu brotthvarfi af vinnumarkaði þau sömu. Þá yrði slík aðgerð mikilvæg til að tryggja jafna möguleika foreldra til samveru með barni sínu og þátttöku í uppeldi barna og heimilishaldi. Í skýrslu starfshópsins frá 2016 var lagt til að lengja fæðingarorlofið í áföngum frá 2019 til 2021, og að lokaniðurstaðan yrði sú sem lagt er upp með í frumvarpinu. Í skýrslunni er þó einnig tekið skýrt fram að æskilegt sé stefnt verði að því að skipta rétti til fæðingarorlofs jafnt á milli foreldra og vísað til hagsmuna fjölskyldna almennt og jafnréttissjónarmiða.[3] Sjást þessi sjónarmið víða í greinargerðinni sem fylgja frumvarpinu.
Umræða og viðhorf í jafnréttismálum eru í sífelldri þróun og á hreyfingu og telur BSRB að nú þegar lengja á fæðingarorlofið eigi að taka það skref að skipta rétti jafnt á milli foreldra. BSRB leggur því til breytingar á a. liðum 1., 2. og 3. gr. frumvarpsins á þá leið að kveðið verði á um að sjálfstæður réttur beggja foreldra verði sex mánuðir. 1. tl. a. liðar 1., 2. og 3. gr. verði þá „í stað orðsins „þrjá“ kemur sex“ og setningar um sameinlega rétt foreldra í sömu greinum falli brott.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lengingin komi til framkvæmdar í tveimur skrefum, sbr. 4. gr. frumvarpsins um bráðabirgðaákvæði. Sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks vegna barna sem fæðast á árinu 2020 verði þannig fjórir mánuðir á hvort foreldri og tveir mánuðir sem foreldrar geta deilt sín á milli, eða tíu mánuðir samanlagt. Stutt er til 1. janúar 2020 og líklegt er að einhverjir verðandi foreldrar hafi þegar skipulagt orlofstöku sína miðað við núgildandi reglur um þrjá mánuði á hvort foreldri og þrjá mánuði til skiptanna. BSRB gerir því ekki athugasemdir við þá skiptingu orlofs sem er fyrirhuguð með bráðabirgðaákvæðinu og mun gilda vegna barna sem fæðast á árinu 2020. Þó þyrfti að breyta orðalagi þess til samræmis við breytingar á öðrum ákvæðum ef fallist verður á tillögu BSRB um breytingar á 1., 2. og 3. gr., þar sem hún gerir ekki ráð fyrir neinum sameiginlegum rétti foreldra.
BSRB telur einnig rétt að benda á að afar misjafnt er á milli sveitarfélaga hvenær börn komast að í dagvistun og að Ísland er eitt Norðurlandanna þar sem börn eiga ekki lögbundinn rétt til dagvistunar.[4] Starfshópurinn um framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum lagði einnig til að öllum börnum yrði tryggt leikskólapláss við 12 mánaða aldur og að skipuð yrði sérstök verkefnisstjórn með fulltrúum ríkis og sveitarfélaga til að vinna að því.[5] Þeirri tillögu hefur ekki verið fylgt eftir og kallar BSRB eftir því að dagvistunarmál verði tekin til skoðunar í félagsmálaráðuneytinu á ný.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á jafnrétti kynjanna. Að mati BSRB er kominn tími til að taka næstu skref fram á við og jafna möguleika foreldra til töku fæðingarorlofs og þar með stöðu þeirra á vinnumarkaði. Aðeins þannig getum við útrýmt gömlum hefðum og viðhorfum og stuðlað að jafnri ábyrgð við umönnun barna. Við græðum öll á því.[6] Að lokum vill BSRB ítreka stuðning við lengingu orlofs í 12 mánuði, og telur afar brýnt að frumvarpið verði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir áramót.
Fyrir hönd BSRB
Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur
[1] Svar félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um fæðingar- og foreldraorlof.
[2] Tölur og umfjöllun má m.a. sjá í nýrri skýrslu Kvenréttindafélags Íslands, Norges kvinnelobby og Sveriges
kvinnolobby þar sem fæðingarorlofskerfi Norðurlandanna eru borin saman.
[3] Velferðarráðuneytið Framtíðarstefna í fæðingarorlofsmálum.Tillögur starfshóps, bls. 24.
[4] Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skýrsla BSRB um dagvistunarúrræði (2017).
[5] Velferðarráðuneytið Framtíðarstefna í fæðingarorlofsmálum.Tillögur starfshóps, bls. 28.
[6] Sjá einnig grein forystukvenna verkalýðshreyfingarinnar, Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB, Drífu
Snædal, forseta ASÍ, og Þórunnar Sveinbjarnardóttur, formanns BHM „Tími og peningar – lengjum
fæðingarorlofið strax“.