Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð), 665. mál
Reykjavík, 14. maí 2020
BSRB hefur borist umsagnarbeiðni um ofangreint frumvarp þar sem lagt er til að gildistími bráðabirgðaákvæðis 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum verði enn á ný framlengdur, nú til 31. desember 2020. Þá er jafnframt lagt til að ákvæðið gildi afturvirkt og taki þannig til samninga sem gerðir voru á tímabilinu frá 1. janúar 2020 og út gildistíma þess. Í upphafi er rétt að taka fram, nú sem fyrr, að bandalagið telur notendastýrða persónulega aðstoð (hér eftir NPA) vera mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðra hér á landi. Umsögnin og athugasemdir bandalagsins snúa alfarið að stöðu þess starfsfólks sem veitir þjónustuna.
Með lögum nr. 80/2015 voru gerðar breytingar á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (hér eftir vinnuverndarlögum) þar sem lögfest var undanþáguheimild frá lágmarksreglum um hvíldartíma og næturvinnutíma starfsmanna. BSRB kom að undirbúningi frumvarpsins og studdi framgang þess á þeim tíma, enda stóð til að útfæra á tímabili undanþágunnar framtíðarlausn til þess að tryggja hagsmuni þess starfsfólks sem um ræðir. Undanþágan átti upphaflega að falla á brot í árslok 2016 en var framlengd til ársloka 2018. Nær engin vinna átti sér stað á því tímabili hvað varðar réttindi NPA starfsmanna.
Þann 1. október 2018 tóku gildi lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þar sem NPA var lögfest. Frá árinu 2015 og þar til sú lögfesting átti sér stað fór sú vinna einfaldlega ekki fram sem lofað hafði verið, en þess má geta að frá upphafi hafa BSRB og önnur hagsmunasamtök og stofnanir á vinnumarkaði ítrekað bent á mikilvægi þess að heildarúttekt fari fram á starfsaðstæðum og vinnuvernd starfsfólks sem veita þjónustuna. Enn fremur hefur þess verið krafist að settar verði sérstakar reglur til þess að tryggja betur réttindi þeirra. Þessum kröfum hefur að nær engu leyti verið svarað.
Þann 2. október 2018 fékk BSRB erindi frá félagsmálaráðuneytinu (þá velferðarráðuneytið) þar sem óskað var eftir tilnefningu í nefnd um réttindi starfsmanna sem veita NPA. Þar sagði að hlutverk nefndarinnar yrði m.a. að fylgjast með því hvort réttindi starfsmanna séu virt, t.d. þegar kemur að vinnutíma, orlofi og vinnuaðstæðum en einnig að koma með tillögur að breytingum á lögum eða reglugerðum gerist þess þörf. Gert var ráð fyrir að nefndin skilaði ráðherra skýrslu eigi síðar en 30. apríl 2019.
Skömmu síðar, eða undir lok árs 2018, var lagt fram frumvarp þar sem til stóð að framlengja þá undanþáguheimild sem hér um ræðir til ársloka árið 2020. BSRB skilaði umsögn um frumvarpið og lagðist gegn því. Þar lagði bandalagið ríka áherslu á að undanþágan fái ekki fram að ganga nema samhliða verði tryggð réttindi starfsmanna sem veita NPA. Niðurstaðan varð sú að undanþágan var framlengd til ársloka árið 2019, en undir þeim formerkjum að á þeim tíma yrði fundin framtíðarlausn á málinu.
Fyrsti fundur nefndar um réttindi starfsmanna sem veita NPA var hins vegar ekki haldinn fyrr en þann 15. ágúst 2019, rúmum þremur mánuðum eftir að skýrsla nefndar um réttindi og aðbúnað starfsmanna sem veita NPA átti að liggja fyrir og rúmum þremur mánuðum áður en undanþágan rann úr gildi. Nefndin er nú að störfum og situr undirritaðir í henni fyrir hönd BSRB.
Nú er undanþáguheimildin útrunnin og af þeim sökum stendur til að framlengja hana enn á ný, nú til ársloka 2020. BSRB getur ekki fallist á það, eins og bandalagið kom á framfæri við ráðuneytið þegar frumvarpið var til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda, með vísan til þeirra miklu tafa sem hafa orðið á málinu allt frá árinu 2015. Í ljósi aðstæðna leggur BSRB þó til, rétt eins og bandalagið gerði í umsögn sinni til ráðuneytisins í febrúar, að undanþágan verði framlengd til 1. september 2020 og tíminn þangað til verði nýttur til þess að finna þá framtíðarlausn sem lofað hefur verið. Það er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur