Umsögn um frumvarp til laga um kjararáð

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um kjararáð, 871 mál

Reykjavík, 28. september 2016

 

BSRB tekur undir meginmarkmið frumvarpsins að fjölga þeim sem taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt og fækka þar með þeim sem falla undir Kjararáð og hins að þeir sem ekki geta samið um laun á venjubundin hátt hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra umfram það sem nú er.

Bandalagið varar þó við að með breyttu fyrirkomulagi sé hætt við enn frekara ógagnsæi í ákvörðun og eftirliti með launaákvörðun þeirra sem teknir eru undan Kjararáði. Mikilvægt er að þær upplýsingar séu teknar saman og birtar a.m.k. árlega með aðgengilegum hætti. Ekki er nægilegt að eingöngu sé vísað til þess hver hlutfallsleg launahækkun hefur orðið heldur skulu þær upplýsingar vera þannig úr garði gerðar að sjá megi heildarlaun og sundurliðun launa. Af þeim ástæðum leggur BSRB til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu, og eftir atvikum enn frekari til að tryggja eftirfarandi:

Lagt er til að í 1. tölul. 8. gr. frumvarpsins um 39. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verði bætt við d. lið þar sem segir: „Starfseining á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra skal taka saman og birta árlega sundurliðaðar upplýsingar um heildarlaun þeirra er falla undir kjararáð, forstöðumanna ríkisstofnana sem eftir breytingar fari eftir ákvörðunarvaldi ráðherra eða stjórnar stofnunar, framkvæmdastjóra hlutafélaga og annars konar félaga þeirra einkaréttareðlis sem taka laun samkvæmt ákvörðun stjórna hlutafélaga og annars konar félaga sem sem flokkast í A-, B- og C- hluta ríkisreiknings og biskupa, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar. Framantöldum aðilum er skylt að afhenda starfseiningu umræddar upplýsingar í þessu skyni.“

Samkvæmd framangreindu þarf einnig tillögum til breytinga vegna nefndra sérlaga í frumvarpinu í eftir því sem við á, sbr. 6.-23. tölul. 8. gr. frumvarps. Þar er fjallað um hverjir fari með ákvörðunarvald launa og að jafnaði segir í frumvarpinu þar um: „skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um laun og önnur starfskjör formanns og varaformanns nefndarinnar fer skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“ Lagt er til að umræddar tillögur til breytinga verði orðaðar svo: „Um laun og önnur starfskjör formanns og varaformanns nefndarinnar ásamt upplýsingaskyldu um ákvörðun launa fer skv. 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“

Fyrir hönd BSRB

 

Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?