Umsögn BSRB um Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, 2. útgáfu, í Samráðsgátt
Reykjavík, 1. október 2020
BSRB telur að með 2. útgáfu aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum sé framsetning markvissari, markmið stjórnvalda og skuldbindingar skýrari og mælikvarðar settir til að auðvelda eftirfylgni. Einnig stendur til að uppfæra áætlunin rafrænt reglulega eftir því sem fram vindur. Mikilvægt er að auðvelt sé að rekja þær breytingar sem gerðar verða svo yfirlit yfir framvindu og árangur, eða árangursleysi, sé skýrt og skiljanlegt.
Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr losun á beina ábyrgð stjórnvalda um 29% fram til ársins 2030 miðað við árið 2005. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að ganga lengra og hefur sett sér þau markmið að losun dragist saman um 40% fyrir sama tímabil og að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Samkvæmt áætluninni er áætlaður samdráttur 35% og móta á frekari aðgerðir sem muni stuðla að 6 – 11% samdrætti til viðbótar. BSRB leggur ekki mat á einstaka aðgerðir, trúverðugleika þeirra og áhrif á losun en leggur megin áherslu á réttlát umskipti (Just Transition) í umsögn sinni.
Þær samfélagsbreytingar sem nú eru að verða vegna loftslagsbreytinga, loftslagsaðgerða, sjálfvirknivæðingar, stafrænna lausna og lýðfræðilegra breytinga munu hafa áhrif á framleiðslu, neyslu og störf til frambúðar. Mikilvægt er að skiptingin af kostnaði, byrðum og ágóða þessara breytinga verði réttlát og að nauðsynlegar aðgerðir og mótvægisaðgerðir verði mótaðar með aðilum vinnumarkaðarins til að tryggja félagslegan stöðugleika og stuðning almennings við nauðsynlegar aðgerðir. BSRB hefur ítrekað bent á þetta í umsögnum sínum um þingmál sem varða aðgerðir til að draga úr losun.
BSRB er, ásamt ASÍ og BHM, í samstarfi við systursambönd sín á Norðurlöndunum og í Þýskalandi um greiningu á áhrifum loftslagsbreytinga og nauðsynlegra aðgerða til að draga úr losun á efnahag og vinnumarkað. Síðar í haust munu tillögur þessara aðila verða kynntar. Í aðgerðaáætluninni segir á bls. 25 að hún verði „rýnd með tilliti til áhrifa aðgerða á mismunandi tekjuhópa, auk þess sem hún verður greind með tilliti til kostnaðar og ábata, meðal annars hvað varðar þjóðhagsleg áhrif aðgerða. Vinna við þetta hefst haustið 2020 og skal lokið haustið 2021.” Aðkoma verkalýðshreyfingarinnar er algjör forsenda þess að við getum tekist á við þær áskoranir og óvissu sem fylgja loftslagbreytingum og tryggt réttlát umskipti sem sameina loftslagsaðgerðir, sjálfbæra velsæld og góð störf. BSRB gerir kröfu um þátttöku bandalagsins í vinnu við áætlun stjórnvalda um réttlát umskipti.
Fyrir hönd BSRB
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
hagfræðingur