BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreinda þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til að tryggja réttlát græn umskipti og leggja fyrir Alþingi eigi síðar en hinn 1. apríl 2025. Markmið aðgerða-áætlunarinnar, sem lagt er til að verði m.a. unnin í samráði við verkalýðsfélög, á að vera að koma í veg fyrir það ójafnrétti sem hlotist getur að loftslagsvá og tryggja að græn umskipti ýti undir jöfnuð í samfélaginu ásamt því að fjárlög og fjármálaáætlanir endurspegli vilja Íslands til að standa við skuldbindingar sínar á alþjóðavettvangi í loftslagsmálum.
Baráttan gegn hamfarahlýnun er brýnasta umhverfis-, samfélags- og efnahagsmál samtímans. Af þeim sökum hafa samtök launafólks í Norræna verkalýðssambandinu og Þýska alþýðu-sambandinu sameinað krafta sína og lagt fram tillögur um réttlát umskipti til kolefnislauss samfélags. Um er að ræða fjórtán samtök launafólks í sex ríkjum þar sem ASÍ, BSRB og BHM áttu sæti. Gefnar voru út skýrslur í hverju landi fyrir sig og var skýrslan fyrir Ísland gefin út í mars mánuði árið 2021 og ber heitið „Réttlát umskipti. Leiðin að kolefnislausu samfélagi. Skýrslan fyrir Ísland er meðfylgjandi umsögninni og þar má finna þær átta tillögur sem samtökin sameinuðust um.
Í skýrslunni er greint frá loftslagsmarkmiðum Íslands og þeim áhrifum sem aðgerðir til að draga úr losun hafa á ólíka samfélagshópa. Reifuð eru stjórntæki yfirvalda og skortur á stefnu stjórnvalda um réttlát umskipti. Í skýrslunni eru lagðar fram tillögur til þess að Ísland geti uppfyllt skuldbindingar sínar vegna Parísarsamningsins og stuðlað að réttlátum grænum umskiptum.
Réttlát umskipti er þýðing á hugtakinu Just Transition sem var fyrst notað af bandarísku verkalýðshreyfingunni á tíunda áratug síðustu aldar. Þá var verið að krefjast stuðningskerfis fyrir verkamenn sem misstu vinnuna vegna strangar umhverfisverndarlöggjafar. Alþjóðaverkalýðshreyfingin, ITUC, gerði síðan hugtakið að sínu og nú er merking þess sú að það þurfi að hámarka áhrif loftslagsaðgerða til að ná kolefnishlutleysi en lágmarka á sama tíma byrðar sem lagðar eru á launafólk og almenning. Áhersla er lögð á sköpun góðra og grænna starfa sem eru launuð með sanngjörnum hætti, veita starfsfólki vinnumarkaðstengd réttindi og rétt til að hafa áhrif á starfsaðstæður sínar. Þess vegna leggur verkalýðshreyfingin áherslu á samstarf við atvinnurekendur og stjórnvöld til að meta áhrif nauðsynlegra loftslagsaðgerða á vinnumarkað og skattbyrði launafólks til að hægt sé að bregðast við með nauðsynlegum mótvægisaðgerðum.
Sameinuðu Þjóðirnar tóku hugtakið upp á sína arma árið 2015 með útgáfu Alþjóða-vinnumálastofnunarinnar, ILO, á leiðarvísi fyrir réttlát umskipti „Guidelines for a just transition towards environmentally sustainble economies and societies for all“. Þetta var í aðdraganda undirritunar Parísarsamningsins síðar sama ár og réttlát umskipti eru einmitt, eins og fram kemur í tillögunni, eitt af markmiðum samningsins. Enn sem komið er hafa íslensk stjórnvöld ekki lagt áherslu á þennan þátt Parísarsamningsins.
Aðgangur verkalýðshreyfingarinnar að ákvörðunum er varða loftslagsstefnu Íslands, varðandi aðgerði gegn loftslagbreytingum og til aðlögunar að þeim breytingum sem óhjákvæmilega verða, er mjög takmarkaður en í ljósi mikilvægi loftslagsmála og réttlátra umskipta er nauðsynlegt að koma á virku samstarfi til að tryggja árangursríkar kerfisbreytingar.
BSRB styður efni þingsályktunartillögunnar heilshugar en leggur til þá breytingu að aðgerðaáætlunin verði gerð í samráði við heildarsamtök launafólks en ekki einstök verkalýðsfélög.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur