BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreinda þingsályktunartillögu sem felur í sér að Alþingi feli heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem hafi það markmið að greina og gera tillögur að fyrirkomulagi til þess að efla geðheilsu fagfólks sem vinnur við að hjálpa öðrum, svo sem starfsfólks heilbrigðiskerfisins, lögreglu, slökkviliðs og í leik-, grunn- og framhaldsskólum o.fl.
Félagsfólk aðildarfélaga BSRB starfar innan heilbrigðiskerfisins, hjá lögreglu, hjá slökkviliðum og innan menntakerfisins. Þetta eru þær starfsstéttir sem helst stafar ógn af samkenndarþreytu.
BSRB setti fram þær kröfur á meðan heimsfaraldur COVID-19 reið yfir heimsbyggðina að gripið yrði strax til fyrirbyggjandi aðgerða vegna langtímaáhrifa álags með því að tryggja fólki hvíld og endurheimt ásamt ráðgjöf og stuðningi frá sérfræðingum vegna hættu á sjúklegri streitu og kulnun. Framlínufólk hefur búið við viðvarandi aðhaldsaðgerðir ásamt miklu og vaxandi álagi til fjölda ára. Þetta viðvarandi álag jókst verulega vegna COVID-19. Nú þegar faraldurinn er að mestu genginn yfir hafa þau snúið aftur til þess álags sem almennt fylgir þeirra daglegu störfum í starfsumhverfi sem á mörgum vinnustöðum einkennist af undirmönnun, óheilbrigðu vinnuálagi og viðvarandi álagskröfu.
Bandalagið fagnar því þingsályktunartillögunni og telur tímabært að farið sé í rannsóknir hér á landi til þess að greina vandann og að í kjölfarið verði settar fram tillögur að úrræðum fyrir umræddan hóp.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur