Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Umsögn BSRB um tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess

Reykjavík, 11. janúar 2019

 

BSRB hefur fengið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um áætlun fyrir árin 2019-2022 um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess.

BSRB styður framgöngu tillögunnar í heild og fagnar því að ráðist sé í stefnumótun á þessu sviði, en gerir í umsögn þessari athugasemdir við nokkra þætti stefnunnar. Að mati BSRB er of lítil áhersla lögð á kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Á árunum 2017 og 2018 hafa fjölmargir hópar kvenna stigið fram og lýst upplifun sinni af kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi undir formerkjum #metoo. Flestir hóparnir tengjast starfsstéttum og atvikin sem lýst var í frásögnum kvennanna gerðust á vinnustöðum. Í þessu samhengi má nefna að fjármunir þeir sem fylgja áætlun þessari eru afar takmarkaðir og má t.d. vísa til aðgerða Svía í kjölfar #metoo til samanburðar, en Svíar hafa ráðstafað 120 milljónum sænskra króna (andvirði yfir 1,6 milljarðs íslenskra króna), m.a. í menntakerfið, til stéttarfélaga, stofnana vinnumarkaðarins og réttarkerfisins, til að bregðast við.

A.9. Vitundarvakning um einelti og ofbeldi á vinnustöðum

BSRB fagnar því að ráðast eigi í vitundarvakningu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum og kortleggja hversu margir vinnustaðir hafa gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Lagt er til að farið verði í fræðslu- og eftirlitsátak á vegum Vinnueftirlitsins (VER) og Velferðarráðuneytisins. Í átakinu á að felast m.a. kynning, útgáfa, fræðsla og leiðbeiningar um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, með áherslu á sálfélagslegt vinnuumhverfi. BSRB telur mjög mikilvægt að gefnar verði út skýrar og aðgengilegar leiðbeiningar, gátlistar og önnur verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir um gerð áhættumats hvað varðar sálfélagslega þætti, en nokkuð hefur skort á það þó eitthvað efni sé til.

BSRB leggur áherslu á að samráð verði haft við stéttarfélög og samtök atvinnurekenda við þessa vinnu og einnig Jafnréttisstofu þar sem nokkur skörun getur verið við jafnréttisáætlanir fyrirtækja á grundvelli jafnréttislaga nr. 10/2008. Aðilar vinnumarkaðarins og Jafnréttisstofa hafa mikla þekkingu á málaflokknum sem mikilvægt væri að koma að í vinnu VER og ráðuneytisins. Svo vísað sé aftur í sænsku tillögurnar þá leika stéttarfélög og fulltrúar þeirra mikilvægt hlutverk í þeim. Til dæmis stendur til að meirihluti þeirra fjármuna sem eyrnamerktur er vinnumarkaðnum (15 milljónir SEK af 25 milljónum) fari til fræðslu trúnaðarmanna stéttarfélaga um allt land.

Mikilvægt er að sinna forvörnum á þessu sviði og tryggt sé að rétt verði brugðist við þegar mál koma upp. Það er á ábyrgð atvinnurekenda að tryggja að viðeigandi ferlar séu til staðar og þolendur fái nauðsynlegan stuðning. #Metoo byltingin sýndi okkur að allt of sjaldgæft er að þolendur kynferðislegrar áreitni og ofbeldi á vinnustöðum stígi fram og leiti úrlausnar sinna mála. Því þarf að breyta, m.a. með því að bæta aðgengi að ráðgjöf sérfræðinga og að starfsmenn séu meðvitaðir um réttindi sín og ábyrgð atvinnurekenda þegar kemur að þessum málum. Þunginn í #metoo byltingunni var slíkur að stjórnvöld þurfa að bregðast við af meiri krafti en lagt er til í áætlun þessari. Í febrúar 2018 bauð verkalýðshreyfingin (ASÍ, BHM, BSRB, KÍ) ásamt Kvenréttindafélaginu til samtals við konur sem tekið höfðu þátt í #metoo. Meðal tillagna sem komu úr því samtali var að skylda stjórnendur og starfsfólk í fræðslu um heilbrigð samskipti og mörk og tryggja faglega aðstoð við þolendur til að vinna úr atvikum. Einnig var lagt til að efla Jafnréttisstofu verulega.

C.2. Upplýsingavefur um ofbeldi

Í áætluninni er fjallað um að opna upplýsingavef með margþættu efni um ofbeldismál. Ekki virðist standa til að fjalla um kynferðislega og kynbundna áreitni og ofbeldi á þeim vef, en með vísan til þess sem nefnt er að ofan í umfjöllun um vitundarvakningu um einelti og ofbeldi á vinnustöðum mætti skoða hvort slíkt sé ekki þörf.

Önnur atriði

BSRB telur einnig rétt að nefna að skortur er á að tekið sé tillit til ólíkra mismununarbreyta í áætluninni, t.d. fötlunar, kynhneigðar, þjóðernisuppruna o.fl. Á síðustu árum hefur orðið ákveðin þróun í umræðu um jafnréttismál og er hún í þá átt að líta til fleiri þátta þegar fjallað er um jafnrétti og mismunun og skoða málaflokkinn heildstætt. Í þessu sambandi má vísa til laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði, sem samþykkt voru á Alþingi á síðasta ári. Í stefnu BSRB er sérstaklega fjallað um valdeflingu jaðarsettra hópa. BSRB leggur því til að þessi þáttur verði skoðaður í meðferð þingsins og að bætt verði við umfjöllun um ólíka jaðarsetta hópa og einstök verkefni sérstaklega skoðuð út frá þörfum og stöðu þeirra.

Þá gerir BSRB athugasemd við hugtakanotkun í greinargerð undir lið A.6, þar sem orðið hefndarklám er notað, og leggur til að hugtakið ,,stafrænt kynferðisofbeldi“ verði notað í staðinn.

Fyrir hönd BSRB

Dagný Aradóttir Pind

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?