BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreinda þingsályktunartillögu og lýsir yfir eindreginni andstöðu við efni hennar. Bandalagið skilaði einnig umsögn um málið þegar það var flutt 2022 og hefur afstaðan ekki breyst. Nokkur ár eru síðan fram fór heildarendurskoðun á löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. lög nr. 144/2020. Áður en frumvarp að þeim lögum var lagt fram á Alþingi var starfandi nefnd í félagsmálaráðuneytinu sem var skipuð aðilum vinnumarkaðarins meðal annarra, þar sem farið var heildstætt yfir lögin. Niðurstaðan var að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði í tveimur skrefum, árin 2020 og 2021, ásamt því að fleiri breytingar voru gerðar, sem allar voru til bóta að mati bandalagsins.
Ákveðið var að skipta rétti til orlofs jafnt á milli foreldra, en þó með heimild til að framselja allt að sex vikur til annars foreldris. BSRB fagnaði þessari niðurstöðu, en afstaða bandalagsins hefur lengi verið sú að orlofi skuli jafnt skipt á milli foreldra. Reynslan af íslenska fæðingarorlofskerfinu sýnir að almennt taka feður fæðingarorlof í samræmi við sinn sjálfstæða rétt og framselja sameiginlega réttinn til móðurinnar. Þetta má sjá á gögnum Fæðingarorlofssjóðs, en fyrir lengingu fæðingarorlofs árið 2020 tóku feður að meðaltali um þrjá mánuði en mæður í kringum sex. Rétturinn var þá 9 mánuðir, þrír mánuðir fyrir hvort foreldri og þriggja mánaða sameiginlegur réttur. Það sama sjáum við í dag, eftir að orlofið var lengt í áföngum í 12 mánuði þar sem 6 vikur eru framseljanlegar milli foreldra, feður taka rúma fjóra mánuði á meðan mæður taka rúma 7.[1] Þá sýnir rannsókn fjármála- og efnahagsráðuneytisins á tekjubreytingum kynjanna í kringum fæðingu barna að ráðstöfunartekjur kvenna lækka að meðaltali um 30-40% á fyrsta ári eftir fæðingu barns og eru enn um 20% lægri þegar barn er tveggja ára. Tekjur feðra lækka um 3-5% við fæðingu barns en verða fljótt þær sömu og áður.[2] Mikilvægt er að stjórnvöld og löggjafinn taki tillit til þessara staðreynda og hafi markmið fæðingarorlofslaga einnig í huga, en þau eru að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
BSRB leggst því gegn því að þingsályktunartillaga þessi hljóti samþykki Alþingis, enda fælist í því mikil afturför, bæði fyrir börn og foreldra.
Fyrir hönd BSRB
Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur