Umsögn BSRB um menntastefnu til ársins 2030
Reykjavík, 13. mars 2020
BSRB hefur tekið til umsagnar þingsályktunartillögu um menntastefnu til ársins 2030, sem sett var í samráðsgátt stjórnvalda 28. febrúar sl. BSRB fagnar því að farið sé í langtímastefnumótun í málaflokknum en bandalagið nefnir hér í umsögn nokkrar vangaveltur.
Undir liðnum starfs-, iðn- og tækninám vill BSRB leggja áherslu á að þær greinar starfsnáms sem enda ekki með sveinsprófi fái jafn mikið vægi og iðnnám. Hér er t.d. um að ræða nám sjúkraliða og félagsliða, auk annarra námsbrauta í umönnunar- og menntageiranum. Brýnt er að styrkja hlutverk þeirra starfsgreinaráða sem fjalla um þau störf sem félagsmenn aðildarfélaga BSRB sinna og búa ráðunum starfsaðstæður sem tryggja að þau geti sinn hlutverkum sínum af metnaði. BSRB kallar einnig eftir skýrri stefnumótun um fagháskólanám og að það nái til fleiri starfsstétta en nú. Sjúkraliðar hafa til dæmis um árabil barist fyrir fagháskólanámi fyrir sína stétt. Í stefnunni er einungis minnst stuttlega á fagháskólanám og kallar BSRB eftir sterkari áherslu á fagháskólanám, ekki síst fyrir opinbera starfsmenn.
Hvað varðar liðinn ævinám og markviss uppbygging hæfni þá fagnar BSRB umfjöllun um tæknibreytingar og fjórðu iðnbyltinguna í menntastefnunni. Fyrirséð er að miklar áskoranir verði á vinnumarkaði á næstu árum og áratugum og tryggja þarf fólki, ekki síst fólki sem ekki hefur lokið formlegri menntun, tækifæri til þess að öðlast þá hæfni sem atvinnulíf framtíðar kallar á. BSRB minnir á tækifæri vinnustaðarins sem námsstaðar sérstaklega með tilliti til ævináms og uppbygingar á hæfni. Mikilvægt er að opinberir vinnuveitendur séu þar virkir þátttakendur þar sem ljóst er að störf og þjónusta sem veitt er af starfsfólki ríkis og sveitarfélaga mun taka breytingum í fjórðu iðnbyltingunni. BSRB leggur áherslu á jafnrétti til náms óháð aðstæðum og á þetta ekki síst við um framhaldsfræðslukerfið. BSRB kallar eftir nánu samráði við bandalög launafólks um stefnumótun vegna fjórðu iðnbyltingarinnar, þróun á framhaldsfræðslukerfinu, raunfærnimati, notkun hæfnirammans og öðrum þeim verkfærum sem koma til með að verða notuð á komandi árum.
BSRB fagnar því að taka eigi saman menntatölfræði, en leggur jafnframt áherslu á að framhaldsfræðslukerfið verði með í þeirri samantekt.
Fyrir hönd BSRB
Dagný Aradóttir Pind
Lögfræðingur