Umsögn BSRB um frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði 394. mál og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, 393. mál
Reykjavík, 11. apríl 2018
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og vísar til fyrri umsagnar sinnar til nefndarinnar fyrir tæplega ári síðan. Þar kemur eftirfarandi fram.
Bandalagið hefur tekið þátt í undirbúningi þessa máls frá 2006 og fagnar framlagningu þess. BSRB hefur í rúmlega áratug lagt mikla áherslu á að svonefndar mismunatilskipanir verði innleiddar með setningu laga um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna sem byggja tilskipunum 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000, um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi og tilskipun 2000/43/EB frá 29. júní 2000, um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis.
Það er löngu tímabært að Ísland leggi áherslu á jafnrétti í víðari skilningi en eingöngu jafnrétti kynjanna og gangi þannig í takt við alþjóðasamfélagið. Til að tryggja að svo megi verða verður að setja almenna löggjöf um bann við mismunun á grundvelli fleiri ástæðna en eingöngu kyns. BSRB hvetur Alþingi eindregið til að samþykkja frumvörpin.
Fyrir hönd BSRB
Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri