BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp þar sem meðal annars eru lagðar til breytingar á lögum um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980. Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Undirbúning frumvarpsins má rekja aftur til október árið 2018 en þá skipaði þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra samstarfshóp í því skyni að sporna gegn félagslegum undirboðum á innlendum vinnumarkaði. Í hópnum átti undirritaður sæti sem fulltrúi BSRB en nefndin skilaði skýrslu til ráðherra og í september árið 2019 skipaði þáverandi félags- og barnamálaráðherra nýja nefnd í því skyni að vinna málið áfram. Undirritaður sat einnig í þeirri nefnd fyrir hönd bandalagins. Eins og fram kemur í greinargerð var afurð þess hóps frumvarp að nýjum starfskjaralögum, sem dagaði uppi í meðförum þingsins. Nú er fram komið það frumvarp sem um ræðir hér þar sem má finna hluta af efni frumvarpsins til starfskjaralaga og var það samið í samráði við bandalagið.
BSRB er fylgjandi efni frumvarpsins og styður heilshugar á komið verði á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Bandalagið fagnar því að samkvæmt frumvarpinu muni BSRB eiga sérstakt sæti í nefndinni, en eins og bandalagið hefur bent á með umsögnum sínum við frumvarp til starfskjaralaga þá er um að ræða mikilvægan samráðsvettvang aðila vinnumarkaðarins.
Bandalagið lýsir að lokum yfir ánægju sinni með lögfestingu samstarfsvettvang eftirlitsaðila þar sem lögreglustjórar, Skatturinn og Vinnueftirlit ríkisins taka saman höndum á sérstökum vettvangi sem hefur eftirlit gegn með því að allir aðilar á vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á innlendum vinnumarkaði.
Fyrir hönd BSRB,
Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur