Efni: Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, 770. mál
Reykjavík, 10. maí 2019
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. BSRB hefur skilning á því að Félagsdómur geti þurft að vera annars staðar en í Reykjavík, en í ljósi eðli starfseminnar er æskilegt að dómstóllinn sé áfram á höfuðborgarsvæðinu. BSRB tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í umsögn Alþýðusambands Íslands um að gæta að hagkvæmnis- og kostnaðarsjónarmiðum fyrir þá aðila
sem reka mál fyrir dómnum.
Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu kynnti Félagsmálaráðuneytið aðilum vinnumarkaðarins efni frumvarpsins áður en það var lagt fram á Alþingi. Var ráðuneytinu þá bent á þessi sjónarmið en engar breytingar urðu þó á frumvarpinu. BSRB leggur því til að annað hvort verði kveðið á um að dómstóllinn verði á höfuðborgarsvæðinu, mögulega með því að telja upp þau sveitarfélög sem þar eru, eða þá að sett verði bráðabirgðaákvæði sem heimilar að dómstóllinn sé utan Reykjavíkur í tiltekinn tíma, á meðan framtíðarhúsnæði er fundið. Vísast um þetta til bráðabirgðaákvæðis VII. í dómstólalögum um Landsrétt, þar sem kveðið er á um að dómstóllinn geti, þrátt fyrir ákvæði 2. gr. um staðsetningu Landsréttar í Reykjavík, haft aðsetur utan Reykjavíkur fram til 2022.
Fyrir hönd BSRB
Dagný Aradóttir Pind
lögfræðingur