Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sorgarleyfi (makamissir), 315. mál

BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp sem felur í sér útvíkkun á lögum um sorgarleyfi með þeim hætti að lögin nái einnig til eftirlifandi foreldra og barna eftir andlát foreldris og maka. Samkvæmt frumvarpinu munu foreldrar barna yngri en 18 ára eiga rétt til sorgarleyfis við þær aðstæður, en núgildandi lög nr. 77/2022 ná einungis til foreldra sem missa barn.

Með setningu laga um sorgarleyfi nr. 77/2022 var foreldrum tryggt svigrúm til sorgarúrvinnslu í kjölfar barnsmissis og eftir atvikum stutt við systkini við að aðlagast breyttum aðstæðum. Einnig er lögunum ætlað að auka líkur á að foreldrar geti átt farsæla endurkomu á vinnumarkað og tekið virkan þátt í samfélaginu að nýju í kjölfar slíks áfalls. BSRB telur rétt og eðlilegt að lög um sorgarleyfi nái einnig til þess þegar börn missa foreldri sitt og að stutt verði við eftirlifandi maka og börn með sama markmiði og lög um sorgarleyfi gera í dag.

Með vísan til framangreinds styður BSRB efni frumvarpsins.

 

 

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?