Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup nr. 120/2016 (markviss innkaup, keðjuábyrgð o.fl.), 442. mál.
Reykjavík, 21. febrúar 2019
BSRB vísar til erindis dags. 6. febrúar sl. þar sem óskað var eftir umsögn bandalagsins vegna ofangreinds frumvarps en þar er m.a. lagt til að settar verði reglur um keðjuábyrgð í lög um opinber innkaup nr. 120/2016.
Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins er lagt til að með nýrri lagagrein, 88. gr. a, verði lögfest heimild til handa kaupanda til þess að fara fram á að verktaki tryggi og beri ábyrgð á að allir starfsmenn fái laun, starfskjör og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Jafnframt er lagt til að kaupanda verði gert heimilt að greiða vangoldnar greiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna á kostnað aðalverktaka, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, standi aðalverktaki ekki í skilum með slíkar greiðslur.
Reglur um keðjuábyrgð hafa áður verið settar í lög um starfsmannaleigur nr. 139/2005 og lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda nr. 45/2007. Gildissvið laganna er þó þess eðlis að þau ná einungis til hluta þeirra framkvæmda sem fara fram hverju sinni. Lögfesting reglna um keðjuábyrgð með breytingum á lögum um opinber innkaup er því mikið hagsmunamál og hefur lengi verið skorað á stjórnvöld að stíga slíkt skref.
Sú heimild sem frumvarpið felur í sér er hins vegar ekki nóg að mati BSRB, heldur þurfa reglur um keðjuábyrgð að fela í sér skyldu til keðjuábyrgðar. Í þessu sambandi má benda á nýlegar tillögur samstarfshóps félags- og barnamálaráðherra um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði. Þar komu saman fulltrúar ráðuneyta, aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalds-stofnana. Hópurinn lagði til fjölmargar tillögur að úrbótum og var einhuga um að lögfesta ætti skyldu til keðjuábyrgðar í lög um opinber innkaup.
Með vísan til framangreinds skorar BSRB á Alþingi að ganga lengra en lagt er til hér og gera keðjuábyrgð að skyldu í lögum um opinber innkaup nr. 120/2016.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur