Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið og lögum um 40 stunda vinnuviku (starfsemi á helgidögum), 549. mál
Reykjavík, 22. mars 2019
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um helgidagafrið annars vegar og lögum um 40 stunda vinnuviku hins vegar. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar í þeim tilgangi að auka frelsi til atvinnurekstrar á helgidögum og koma til móts við þá sem vilja njóta þjónustu og afþreyingar á lögbundnum frídögum. Nokkur samskonar eða sambærileg frumvörp hafa verið lögð fram á undanförnum árum og hefur BSRB skilað umsögnum vegna þeirra en einnig var viðhaft samráð við bandalagið við undirbúning frumvarpsins í velferðarráðuneytinu.
BSRB gerir ekki sérstakar athugasemdir við þær breytingar sem frumvarpið felur í sér á lögum um helgidagafrið en tekur þó undir þær athugasemdir sem koma fram í umsögn Alþýðusambands Íslands um málið. Meginmarkmið frumvarpsins er að auka frelsi til atvinnurekstrar á helgidögum en ekki virðist vera litið eins mikið til frelsis og hagsmuna starfsmanna til þess að njóta lögbundinna frídaga í því sambandi. BSRB tekur hins vegar ekki undir afstöðu þeirra umsagnaraðila sem vilja fella lög um 40 stunda vinnuviku úr gildi eða þann hluta frumvarpsins sem felur í sér upptalningu frídaga. Sú upptalning þjónar mikilvægum tilgangi þrátt fyrir að kjarasamningar hafi almennt einnig að geyma slíka upptalningu.
Þá vill BSRB benda á að lög um 40 stunda vinnuviku ná ekki til vaktavinnufólks og til þess að jafna stöðu þeirra gagnvart þeim sem sinna vinnu á hefðbundnum dagvinnutíma telur bandalagið að bæði aðfangadagur jóla og gamlársdagur ættu að teljast til frídaga allan sólarhringinn en ekki einungis frá klukkan 13:00 þá daga, eins og frumvarpið felur í sér.
Að öðru leyti gerir BSRB ekki athugasemdir við efni frumvarpsins.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur