Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (fæðingarhjálp)
Reykjavík, 15. janúar 2018
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (fæðingarhjálp).
BSRB styður markmið þessa frumvarps og telur það jákvætt skref í átt að jafnræði meðal einstaklinga sem eiga kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð og þeirra sem hafa það ekki. Líkt og ítrekað hefur verið bent á fylgir því gjarnan verulegur aukalegur kostnaður fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem þurfa að sækja sér fæðingarþjónustu utan heimabyggðar s.s. vegna húsnæðis. Greiðslur í fæðingarorlofi eru 80% hlutfall af meðallaunum foreldra að ónefndu svokölluðu þaki á greiðslur sem getur falið í sér að hlutfallið er mun lægra en svo.
Núverandi aðstæður verðandi foreldra sem ekki eiga kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð er óásættanleg og leiðir til verulegs aðstöðumunar samanborið við þá sem eiga kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Þá eru ónefnd réttindi barnanna ekki síst með tilliti til öryggis þeirra og heilsu.
BSRB leggur til að skipuð verði nefnd á vegum Velferðarráðuneytis sem hafi það hlutverk að móta tillögur að framtíðarskipan stuðnings við einstaklinga sem ekki eiga kost á fæðingarþjónustu í heimabyggð. Í þeirri nefnd eigi sæti fulltrúar beggja ráðherra innan ráðuneytisins enda um þverfaglegt verkefni að ræða.
Fyrir hönd BSRB
Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri