BSRB hefur fengið til umsagnar ofangreint frumvarp sem felur í sér rétta innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/88/EB frá 4. nóvember 2003, um ákveðna þætti er varða skipulag vinnutíma. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2004 frá 23. apríl 2004 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn. Umræddar breytingar eru viðbrögð stjórnvalda við athugasemdum ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, vegna kvörtunar Alþýðusambands Íslands frá því í maí árið 2019.
Því miður hafa á undanförnum árum fallið dómar hér á landi þar sem byggt er á rangri innleiðingu tilskipunarinnar og dómstólar þar hafnað kröfum launafólks þar sem þeim hafi sjálfum verið í lófa lagið að halda utan um sinn vinnutíma. Atvinnurekendur hafa þannig verið sýknaður af kröfum um greiðslur fyrir vinnutíma eða uppgjör frítökuréttar á grundvelli hinnar röngu innleiðingar.
BSRB styður frumvarpið eindregið og telur það tryggja löngu tímabæra og rétta innleiðingu á tilskipun 2003/88/EB.
Fyrir hönd BSRB
Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur