Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með síðari breytingum (vinnutími starfsmanna sem veita notendastýrða persónulega aðstoð)
Reykjavík, 14. nóvember 2018
BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (hér eftir vinnuverndarlögum) þar sem lagt er til að framlengd verði heimild til að semja um rýmri vinnutíma en ákvæði laganna gera ráð fyrir vegna þeirra sem veita notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Í upphafi er rétt að taka fram að bandalagið telur NPA vera mikilvægan áfanga í réttindabaráttu fatlaðra en umsögnin lýtur að stöðu þess starfsfólks sem veitir NPA.
Með lögum nr. 80/2015 var vinnuverndarlögum breytt og lögfest sérstök undanþáguheimild frá lágmarksreglum um hvíldartíma og næturvinnutíma þeirra starfsmanna sem veita einstaklingum þá aðstoð sem um ræðir. BSRB kom að undirbúningi frumvarpsins og studdi framgang þess á þeim tíma, enda stóð til að útfæra í kjölfarið framtíðarlausn til þess að hagsmunir starfsfólks innan NPA yrðu tryggðir. Á þeim tíma var NPA sérstakt bráðabirgðaverkefni og af þeim sökum var umrædd undanþáguheimild eingöngu hugsuð til bráðabirgða. Upphaflega átti hún að falla brott í árslok 2016 en var síðar framlengd til ársloka í ár, eða til þess tíma þegar lög um réttinn til notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar myndu taka gildi.
Þann 1. október sl. tóku gildi lög nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þar sem NPA var lögfest. Frá upphafi hafa BSRB og önnur hagsmunasamtök og stofnanir á vinnumarkaði ítrekað bent á mikilvægi þess að heildarúttekt fari fram á starfsaðstæðum og vinnuvernd starfsfólks innan NPA. Enn fremur hefur þess verið krafist að settar verði sérstakar reglur til að tryggja betur réttindi starfsmanna inna NPA, standi vilji stjórnvalda til þess að festa í sessi undanþágur vegna NPA. Þessum kröfum hefur að nær engu leyti verið svarað og nú stendur til að framlengja aftur bráðabirgðaákvæðið umdeilda til ársloka 2020.
Samkvæmt framansögðu leggst BSRB gegn framgangi frumvarpsins og leggur ríka áherslu á að undanþágan gangi ekki fram nema að samhliða verði tryggð réttindi þeirra sem sinna NPA.
Fyrir hönd BSRB
Helga Jónsdóttir
framkvæmdastjóri