Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum nr. 36/1994 (skráningarskylda vegna húsaleigusamninga og breytinga á leigufjárhæð), 572. mál.

Þó BSRB hafi ekki fengið til umsagnar ofangreint frumvarp, sem felur í sér breytingar á húsaleigulögum nr. 36/1994, þá vill bandalagið koma á framfæri stuttri umsögn um málið.

Breytingarnar snúa m.a. að skráningarskyldu húsaleigusamninga í sérstakan gagnagrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (hér eftir HMS) í þeim tilgangi að fá betri upplýsingar um leigumarkaðinn hér á landi. Samkvæmt frumvarpinu er þetta einnig liður í að tryggja betur framkvæmd þeirrar grundvallarreglu húsaleigulaga að leigufjárhæð skuli vera sanngjörn og eðlileg í garð beggja aðila. Breytingarnar eru hluti af tillögum átakshóps stjórnvalda í húsnæðismálum sem skipaður var undir lok árs 2018.

Í ljósi þess ástands sem ríkir á húsnæðismarkaði, og hefur verið um nokkurt skeið, er nauðsynlegt að stjórnvöld hafi rauntíma upplýsingar um íslenskan leigumarkað og geti brugðist við með úrræðum á grundvelli þeirra. Sú kortlagning sem skráning allra húsaleigusamninga í gagngrunn HMS hefur í för með sér er mikilvægt skref í þá átt að bæta húsnæðisöryggi og réttarstöðu leigjenda hér á landi með traustri lagaumgjörð í náinni framtíð.

Með vísan til þess styður BSRB efni frumvarpsins og telur það fela í sér réttarbót fyrir leigjendur til framtíðar. Það er mikilvægt að stjórnvöld hafi betri yfirsýn yfir leigumarkaðinn því slík yfirsýn auðveldar alla stefnumótun í málaflokknum. Bandalagið hvetur því til þess að frumvarpið verði samþykkt og að Alþingi afgreiði það fljótt og vel.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?