Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu)

Umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (þrenging ákvæðis um hatursorðræðu), 543. mál

Reykjavík, 22. mars 2019

BSRB hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (hér eftir hgl.) þar sem lagðar eru til breytingar á 233. gr. a með það að leiðarljósi að þrengja skilgreiningu á því hvað telst til hatursorðræðu í skilningi ákvæðisins. Samkvæmt
greinargerð eru breytingarnar gerðar í þágu þess að rýmka fyrir tjáningarfrelsi, en með breytingunum munu tiltekin ummæli ekki geta verið heimfærð undir 233. gr. a hgl. nema þau hafi verið til þess fallin að hvetja til eða kynda undir hatur, ofbeldi eða mismunun.

Undanfarin ár hefur farið töluvert fyrir umræðu um tiltekna minnihlutahópa hér á landi og er sú umræða oft óvægin í þeirra garð. Nútíma tækni hefur gert þeim sem vilja láta frá sér hatursfull ummæli í skjóli nafnleyndar auðvelt fyrir og margir vefmiðlar bjóða upp á sérstök kerfi fyrir athugasemdir þar sem slík háttsemi getur þrifist. Einstök ummæli hafa verið talin fela í sér brot á 233. gr. a hgl. af dómstólum á Íslandi, líkt og farið er yfir í greinargerð með frumvarpinu, og hafa þeir þá jafnan litið til þeirra alþjóðaskuldbindinga sem Ísland hefur tekið sér á hendur,
t.a.m. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og talið að ákvæðið í núverandi mynd uppfylli skilyrði þess ákvæðis og 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi.

Að mati BSRB liggur tilefni og nauðsyn lagasetningarinnar ekki nægilega ljóst fyrir, en þær breytingar sem lagðar eru til hér virðast vera viðbrögð löggjafarvaldsins við tilteknum dómum Hæstaréttar sem fallið hafa á undanförnum árum. BSRB telur umræddar breytingar þó ganga of langt í þeirri átt að rýmka fyrir réttindum þeirra sem vilja bera út hatursfull ummæli eða annars konar tjáningu. BSRB getur því ekki fallist breytingarnar og tekur raunar undir nær allar þær umsagnir sem borist hafa vegna málsins - en þar er nánast einhugur meðal umsagnaraðila um að frumvarpið skuli ekki ná fram að ganga. Bandalagið telur núverandi orðalag ákvæðisins til þess fallið að vernda minnihlutahópa, sem og alla aðra, gagnvart hatursfullum ummælum, ofbeldi og mismunun sem er enda tilgangur ákvæðisins, en jafnframt ekki ganga of langt í því að skerða tjáningarfrelsi, eins og því hefur verið beitt í framkvæmd af íslenskum dómstólum.

BSRB telur því þá breytingu sem frumvarpið felur í sér ganga of langt í þá átt að rýmka fyrir hatursorðræðu í íslensku samfélagi og leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt sem lög.

Fyrir hönd BSRB

Hrannar Már Gunnarsson
lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?