Umsögn BSRB um drög að skýrslu og tillögum starfshóps um verðmætamat kvennastarfa og endurmat á virði kvennastarfa
Reykjavík, 5. október 2021
Starfshópur um endurmat á störfum kvenna var skipaður í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem undirrituð var við gerð kjarasamninga milli ríkis og sveitarfélaga og aðildarfélaga BSRB vorið 2020. Starfshópurinn skilaði drögum að skýrslu í samráðsgátt stjórnvalda þann 7. september sl. Fulltrúi BSRB átti einnig sæti í starfshópnum um endurmat kvennastarfa sem tók til starfa í lok árs 2020 og skilaði af sér þeirri skýrslu og tillögum sem nú er til umsagnar.
Um 2/3 hluta félagsmanna aðildarfélaga BSRB eru konur og fjölmargar starfa innan starfsstétta þar sem konur eru í meirihluta, svonefndum kvennastéttum, t.d. í heilbrigðis- og félagsþjónustu og í menntakerfinu. Dæmi þar um eru sjúkraliðar, félagsliðar, skólaliðar, leikskólaliðar, leiðbeinendur á leikskólum, aðstoðar- og ritarastörf á stofnunum og læknastofum, matráðar og störf við matseld og umönnun á hjúkrunarheimilum.
BSRB fagnar útgáfu skýrslunnar og tillögum til aðgerða enda hefur bandalagið til margra ára lagt áherslu á að gripið verði til aðgerða til að útrýma skökku verðmætamati kvennastarfa. Ástæða þess að mikilvægt er að horfa sérstaklega til kvennastétta leiðir af því að kynskiptur vinnumarkaður er meginástæða kynbundins launamunar, konum í óhag. Með því að setja kastljósið á aðgerðir þar til að leiðrétta vanmat á störfum kvennastétta má taka stærsta mögulega skrefið í áttina að endanlegu launajafnrétti kynjanna.
Hagstofan birti nýja launarannsókn sem tekur til áranna 2008-2020, sama dag og tillögurnar sem hér eru til umsagnar voru birtar. Þar bendir Hagstofan enn og aftur á að vinnumarkaðurinn sé mjög kynskiptur þegar litið sé til atvinnugreina og starfa og það sé meginástæða kynbundins launamunar. Laun séu að meðaltali lægri í stéttum þar sem konur eru í meirihluta og að þær stéttir heyri margar undir opinbera geirann þar sem launamyndun er ólík því sem er á almennum vinnumarkaði. Í niðurlagi skýrslunnar er lögð fram spurningin: Hvers vegna eru laun í svokölluðum kvennastéttum lægri en laun í hefðbundnum karlastéttum? Í rannsókn Hagstofunnar er einnig fjallað um mikilvægi þess að horfa ekki bara á eina tölu þegar fjallað er um launajafnrétti, heldur heildarmyndina.[1] Ástæðurnar eru fjölbreyttar og í gegnum tíðina hefur þetta viðfangsefni verið sagt flókið og því gengið hægt að stíga þau skref sem þarf að stíga til að eyða kynbundnum launamun.
Vanmat á störfum kvennastétta byggir almennt ekki á ásetningi um að mismuna skuli kynjunum eða meðvitaðri hlutdrægni heldur er það afleiðing af sögulegum, menningarlegum og kerfisbundnum ástæðum. Með þessa þekkingu í farteskinu erum við betur í stakk búin til að útrýma launamisrétti.
Skýrsla starfshóps forsætisráðherra tekur með greinargóðum hætti saman stöðu þekkingar á sviðinu sem byggir undir þær tillögur sem gerðar eru. Reynslan sýnir að aðgerðarleysi leiðir til þess að ekkert breytist. Þess vegna þarf að grípa þegar í stað til aðgerða til að leiðrétta laun kvennastétta sem hafa í sögulegu ljósi verið vanmetin. Þar eiga stjórnvöld að leika lykilhlutverk með því að innleiða skýra stefnu og þróa verkfæri í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins líkt og starfshópurinn leggur til. BSRB leggur áherslu á að eftirfylgni og framkvæmd tillagnanna verði í forgangi hjá forsætisráðuneytinu og skrifstofu jafnréttismála.
F.h. BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Formaður BSRB
[1] Hagtíðindi, launamunur karla og kvenna 2008-2020 (2021)