Umsögn BSRB um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020 (fjölburaforeldrar og veikindi á meðgöngu)

BSRB styður þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum um veikindi á meðgöngu og fagnar því að fyrirhugaðar breytingar munu gilda fyrir alla foreldra sem eiga ónýtt réttindi innan fæðingarorlofskerfisins við gildistöku laganna.

BSRB gerir þó athugasemdir við breytingar á 15. og 34. gr. laganna sem kveða á um lengingu orlofs vegna fjölburafæðinga. Núverandi löggjöf gerir ráð fyrir því að foreldar eigi sameiginlegan rétt á lengingu fæðingarorlofs um þrjá mánuði umfram hvert barn sem fæðist, er ættleitt eða tekið í fóstur. Með breytingunni er lagt til að lengja sameiginlegan rétt foreldra í 6 mánuði. BSRB gerir ekki athugasemdir við að réttur fjölburaforeldra til fæðingarorlofs sé aukinn, en leggur áherslu á að þeim rétti sé jafnt skipt á milli foreldra, þannig að hvort foreldri um sig eigi sjálfstæðan þriggja mánaða rétt fyrir hvert barn umfram eitt. Sú leið samrýmist mun betur því tvíþætta markmiði fæðingarorlofslaganna, sbr. 2. gr. laga 144/2020, sem er að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sem og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Er það einnig í samræmi við almenna ákvæðið um skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra í löggjöfinni.

Reynslan af íslenska fæðingarorlofskerfinu sýnir að almennt taka feður fæðingarorlof í samræmi við sinn sjálfstæða rétt og framselja sameiginlega réttinn til móðurinnar. Þetta má sjá á gögnum Fæðingarorlofssjóðs, en fyrir lengingu fæðingarorlofs árið 2020 tóku feður að meðaltali um þrjá mánuði en mæður í kringum sex. Rétturinn var þá 9 mánuðir, þrír mánuðir fyrir hvort foreldri og þriggja mánaða sameiginlegur réttur. Það sama sjáum við í dag, eftir að orlofið var lengt í áföngum í 12 mánuði þar sem 6 vikur eru framseljanlegar milli foreldra, feður taka rúma fjóra mánuði á meðan mæður taka rúma 7.[1] Þá sýnir rannsókn fjármála- og efnahagsráðuneytisins á tekjubreytingum kynjanna í kringum fæðingu barna að ráðstöfunartekjur kvenna lækka að meðaltali um 30-40% á fyrsta ári eftir fæðingu barns og eru enn um 20% lægri þegar barn er tveggja ára. Tekjur feðra lækka um 3-5% við fæðingu barns en verða fljótt þær sömu og áður.[2] Mikilvægt er að stjórnvöld og löggjafinn taki tillit til þessara staðreynda og hafi markmið fæðingarorlofslaga einnig í huga.

Fæðingarorlofskerfið er hornsteinn jafnréttis, bæði á vinnumarkaði og í samfélaginu. Jöfn skipting orlofs stuðlar að því að því að fjarvera beggja foreldra frá vinnumarkaði vegna barneigna verði jafn löng og áhrifin af tímabundnu brotthvarfi af vinnumarkaði sambærileg. Það er einnig mikilvægt til að tryggja jafna möguleika foreldra til samveru með barni sínu og þátttöku í uppeldi barna og heimilishaldi.

 

Fyrir hönd BSRB,

Dagný Aradóttir Pind, lögfræðingur

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?