Sameiginleg umsögn BHM og BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi (stuðningur við kjarasamninga), 910. mál

Vísað er til beiðni velferðarnefndar dags. 16. apríl sl. um umsögn samtakanna um frumvarpið. Er frumvarpið hluti af sameiginlegum aðgerðum ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að greiða fyrir kjarasamningum í á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Með frumvarpinu er lagt til að hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þremur áföngum úr kr. 600.000 á mánuði í kr. 900.000 á mánuði. Jafnframt er lagt til að fjárhæðir á grundvelli laga um sorgarleyfi taki sömu breytingum.


Samtökin fagnar því að til standi að hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs og greiðslum í sorgarleyfi enda hafa þau um árabil lagt áherslu á að hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækki. Hámark mánaðarlegra greiðslna úr sjóðnum var lækkað talsvert í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Gekk sú meinta tímabundna lækkun aldrei alveg til baka sé horft til þróunar verðlags og launa.


Þrátt fyrir að samtökin fagni því að til standi að hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs vilja þau koma á framfæri tveimur athugasemdum. Annars vegar að telja að betra væri ef fyrirhugaðar hækkanir yrðu allar lögfestar. Í greingargerð með frumvarpinu kemur fram að greiðslur skuli koma til endurskoðunar við afgreiðslu fjárhlaga ár hvert og ráðherra sé jafntramt heimilt um áramót, að fengnu samþykki ríkisstjórnar og að öðrum skilyrðum uppfylltum, að hækka fjárhæðir fæðingarorlofs með reglugerð. Nú sé ekki um að ræða hækkun um áramót og er því með frumvarpi þessu gerð tillaga um hækkun vegna ársins 2024. Hins vegar verði hækkanir hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði vegna áranna 2025 og 2026 gerðar með reglugerð á grundvelli 54. gr. laganna. Telja samtökin því betur fyrir komið, fyrst verið er að leggja fram frumvarp þetta, að einnig verði kveðið á um hækkun hámarksgreiðslna vegna áranna 2025 og 2026. Í raun er algjör óþarfi að skilja það eftir fyrir ráðherra að ákveða í reglugerð að fengnu samþykki ríkisstjórnar Íslands að hækka greiðslurnar í stað þess að lögfesta hækkanir næstu tveggja áramóta.


Hins vegar telja samtökin eðlilegt að sú hækkun sú sem frumvarpið kveður á um, og er ætlað að taka gildi afturvirkt frá 1. apríl 2024 að telja, gildi frá 1. janúar 2024. Fyrir því er löng venja að miða hækkanir hámarksgreiðslna vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur við 1. janúar ár hvert og væri eðlilegt að svo væri nú alveg eins og um næstu áramót og þar næstu. Fyrir því eru rík jafnræðisrök. BHM og BSRB fagnar því að til standi að hækka hámarksgreiðslur fæðingarorlofs en leggja til að fyrirhugaðar hækkarnir verði allar lögfestar með frumvarpi þessu og að fyrsta hækkunin gildi afturvirkt frá 1. janúar 2024 vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur sem og um sorgarleyfi til foreldra sem verða fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturláti frá þeim tíma.


Virðingarfyllst,

Fyrir hönd BSRB, Hrannar Már Gunnarsson, lögfræðingur BSRB

Fyrir hönd BHM, Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?