Kæru félagar, til hamingju með daginn!
Það er mér mikill heiður að fá að vera hér með ykkur hér í Hafnarfirði í dag á baráttudegi verkalýðsins.
Fyrsta kröfugangan og útifundurinn í tilefni af 1. maí sem haldin var hér í Hafnarfirði, var á lýðveldisárinu 1944. Bjartsýni og kraftur var yfir um allt, dagur íslenskrar alþýðu var háður á dögum nýrrar aldar. Öld verkamannsins var að renna upp!
Íslendingar voru þá við það að endurheimta frelsi sitt að fullu og alþýða þess tíma var ákveðin í að láta það ekki verða frelsi fámennrar auðstéttar til að græða á striti almúgans, heldur frelsi starfandi þjóðar til að byggja upp nýtt og betra Ísland.
Sagan sýnir að samstaða launafólks og kröfur þeirra hafa skilað samfélaginu félagslegu réttlæti og jöfnuði.
Ábyrgðin er okkar – að halda fram á veginn. Breiðfylkingin sem sameinast um kröfur og lætur ekki deigan síga – fyrr en takmarkinu er náð.
Það er ekki síst mikilvægt að hafa það í huga í ljósi þeirra áskorana sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.
Við höfum að undanförnu fengið upplýsingar um að fólk, sem hefur viljað láta til sín taka í íslensku samfélagi, eigi miklar eignir í skattaskjólum – þar sem megintilgangurinn er að fela eignarhald og komast undan því að greiða skatta til samfélagsins.
Við sættum okkur ekki við að þeir sem mest hafa geti ráðið því sjálfir hvort þeir ætla að greiða skatta til velferðarsamfélagsins, með okkur hinum, eða fela fjármuni sína í skattaskjólum á sólríkum Suðurhafseyjum. Við sýndum það svo sannarlega í verki – 22.000 manns mættu til mótmæla á Austurvelli. Krafan um breytingar gekk eftir, að einhverju leyti, þökk sé samstöðunni. En betur má ef duga skal.
Fréttir af skattaleynd og undanskotum eru ekki til þess fallnar að auka traust okkar á ráðmönnum. Afleiðingar efnahagshrunsins eru okkur enn í fersku minni og hörð verkfallsátök eru að verða veruleikinn sem við búum við.
Síðustu tvö ár hefur verið unnið að því markvisst að bæta umgjörð við gerð kjarasamninga. Það var að frumkvæði BSRB sem sú vinna fór af stað og samhliða gerð nýrra samninga síðastliðið haust var undirritað samkomulag um að vinna að því að koma á nýjum og bættum vinnu-brögðum með það að markmiði að auka hér kaupmátt og koma á efnahagslegum og félagslegum stöðugleika. Þetta samkomulag hefur í daglegu tali verið kallað SALEK-samkomulagið.
Þó tekist hafi að gera nýja kjarasamninga til lengri tíma á síðasta ári og unnið sé að nýju vinnumarkaðsmódeli, eru fjölmörg önnur krefjandi verkefni sem bíða okkar. Þar á meðal er vinna við samræmingu lífeyrisréttinda milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins ásamt því að samræma laun milli þessara markaða.
Það er skýr krafa að uppsveiflan skili sér í aukinni velferð fyrir alla. Velferðarkerfi þar sem öllum er tryggður aðgangur að framúrskarandi þjónustu án tillits til greiðslugetu. Markmiðið er að allir eigi þess kost að hafa öruggt og gott húsnæði, og geti lifað af launum sínum. Að elli– og örorkulífeyrir fylgi launahækkunum og verulegur aukinn stuðningur verði við barnafjölskyldur. Samanborið við önnur Norðurlönd eru framlög Íslands til velferðarmála minnst. Hagtölur þessara landa sýna svart á hvítu að þótt útgjöld til velferðarmála séu þar há, skila þeir fjármunir sér margfalt til baka.
Við þurfum að komast enn nær þeim lífsgæðum, og við getum vel komist þangað. En til þess þarf að breyta áherslunum. Þannig tekst okkur að byggja réttlátara samfélag, jafnari og farsælli framtíð sem byggir á samfélagslegri ábyrgð, öllum til hagsbóta.
Til þess að það markmið náist er ein meginkrafa okkar að skattkerfið sé nýtt sem jöfnunartæki. Arður auðlindanna á að nýtast þjóðinni allri, til að styrkja innviðina. Reka á skattkerfið, og um leið velferðarkerfið, með því hugarfari að fólk greiði inn eftir efnum en taki út eftir þörfum.
En það þarf meira til. Við verðum að gera kröfu um að fyrirtæki og félög sem hafa svigrúm til að hækka verulega arðgreiðslur skili einnig sköttum til samfélagsins í takt við stærð sína.
Það er grundvallarkrafa að þeir efnameiri leggi meira til samfélagsins og sýni samfélagslega ábyrgð.
Á sama tíma og skattur á þá efnameiri var lækkaður verulega hefur greiðsluþátttaka í heilbrigðiskerfinu aukist og ástandið í heilbrigðismálum er almennt grafalvarlegt. Umgjörð kerfisins hefur ekki tekið breytingum í áratugi og heilsugæslan er afar veikburða enda búið við langvarandi fjársvelti, svo ekki sé talað um Landspítalann – þjóðarsjúkrahúsið okkar.
Ný rannsókn prófessors Rúnars Vilhjálmssonar á heilsu og lífsháttum Íslendinga gefur sterkar vísbendingar um að gjaldtakan í heilbrigðiskerfinu hefti aðgengi tiltekinna hópa að þjónustunni. Niðurstöður hans sýna að of stór hópur Íslendinga frestar því að leita sér læknisaðstoðar, jafnvel þótt hann telji sig þurfa á slíkri þjónustu að halda. Stöðugt fleiri nefna kostnað sem ástæðu þess að þeir leita ekki til læknis. Við slíkt ástand verður ekki unað.
Sem svar við þessu hafa stjórnvöld boðað tvennar breytingar varðandi heilbrigðismál, annars vegar þak á greiðslur sem felur í sér aukna gjaldtöku af stórum hluta þjóðarinnar, og hins vegar opnun þriggja nýrra einkarekinna heilsugæslu¬stöðva á höfuðborgarsvæðinu.
En ég hef ekki orðið vör við að fólkið í landinu sé að biðja um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, og því síður að það óski eftir að greiða meira fyrir læknisþjónustuna.
Þvert á móti kom fram í rannsókn Rúnars að rúmlega 80% svarenda töldu að hið opinbera eigi fyrst og fremst að sjá um rekstur helstu þátta heilbrigðisþjónustunnar en aðeins 1% taldi að einkaaðilar ættu þar að vera umsvifamestir.
Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir sýna að félagsleg heilbrigðiskerfi eru skilvirkari en önnur heilbrigðiskerfi. Þau skila, með öðrum orðum, almenningi betri lýðheilsu fyrir lægri heildarkostnað.
Þessar niðurstöður segja okkur að stjórnvöld eru á rangri braut. Gjaldfrjáls aðgangur allra að grunnþjónustunni verður að vera tryggður og það er eitt mikilvægasta verkefni framtíðarinnar að sjá til þess að svo verði.
BSRB hefur í öllum störfum sínum lagt áherslu á að komið verði á fjölskylduvænna samfélagi. Krafan felur í sér bætt fæðingarorlofskerfi og samfellu í dagvistun barna að loknu fæðingarorlofi, styttingu vinnuvikunnar og aukinn sveigjanleika á vinnumarkaði miðað við þarfir einstaklinganna og síðast en ekki síst, er krafan að fjölskyldur búi við öryggi í húsnæðismálum.
Fjölmargar rannsóknir sýna að íslenskir foreldrar eru að sligast undan álaginu af samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs og því er þörf á breytingum.
Krafa BSRB um styttingu vinnuvikunnar er mikilvægur liður í því að búa til fjölskylduvænna samfélag, sem grundvallast á samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Styttri vinnuvika án launaskerðingar leiðir til meiri starfsánægju og aukinna afkasta, bættrar heilsu, meiri vellíðunar og stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna á heimilum.
Mikilvægur áfangi náðist á síðasta ári þegar fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra undirrituðu yfirlýsingu þess efnis að farið yrði af stað með tilraunaverkefni til þess að stytta vinnutíma starfsfólks hjá ríkinu. BSRB tekur þegar þátt í vinnu starfshóps sem hefur útfært slíkt verkefni innan Reykjavíkurborgar.
Stytting vinnuvikunnar virðist samkvæmt rannsóknum vera fjarlægur draumur flestra foreldra sem keppast við að samþætta fjölskyldu- og atvinnulíf. Draumurinn færist hins vegar nær okkur með tilraunaverkefnum sem þessum.
Íslenskir foreldrar hafa mun lakari réttindi í fæðingarorlofi en foreldrar á Norðurlöndunum hvort sem rætt er um upphæð greiðslna eða lengd orlofsins.
Fyrirkomulag kerfisins hefur ekki tekið breytingum frá því það var fyrst sett á, fyrir utan ítrekaða lækkun á hámarksgreiðslum. Það hefur haft þau alvarlegu áhrif að þátttaka feðra í fæðingarorlofi hefur minnkað verulega, og gengur það þvert gegn markmiðum laganna. Tillögur okkar eru að fæðingarorlofið verði lengt úr níu mánuðum í tólf, að hámarksgreiðslur verið hækkaðar, og að þær verði óskertar upp að 300.000 þúsund krónum.
Eigi íslenskt samfélag að færast nær þeim norrænu velferðarsamfélögum sem við viljum bera okkur saman við, verðum við einnig að huga að því að móta heildstæða stefnu um dagvistun sem tekur við af fæðingarorlofi loknu, og að sú þjónusta sé á vegum hins opinbera.
Krafan byggir ekki eingöngu á réttindum barna til dagvistunarúrræða heldur einnig möguleikum foreldra til atvinnuþátttöku og jafnréttis á vinnumarkaði. Það er því nauðsynlegt að taka til skoðunar samspil atvinnulífs og mismunandi þarfir fjölskyldna með því að innleiða meiri sveigjanleika í starfi.
Að lokum vil ég árétta kröfuna um að fjölskyldur búi við öryggi í húsnæðismálum. BSRB og ASÍ hafa hvatt stjórnvöld til að taka á brýnum vanda á leigumarkaði, vanda sem snertir einkum tekjulágar fjölskyldur. Það hefur verið grundvallaratriði í okkar huga að leigumarkaður verði raunverulegur valkostur heimilanna þannig að leiguverð sé hóflegt og búsetuöryggi sé tryggt – þá sérstaklega fyrir barnafjölskyldur.
ASÍ hefur nú tilkynnt áform um að koma á fót almennu leigufélagi, og BSRB er að skoða alvarlega að taka þátt í því verkefni. Leigufélagið yrði rekið án hagnaðarsjónarmiða til að tryggja þeim tekjulægri leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Forsenda þess að hægt verði að koma á fót slíku leigufélagi er að húsnæðisfrumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra verði að lögum.
Látum baráttuanda og árangur forfeðra og formæðra okkar sem söfnuðust hér saman í fyrsta sinn fyrir 72 árum, blása okkur kraft og von í brjóst. Öld verkafólksins – almennings – er ekki lokið. Við, rétt eins og þau, viljum skila komandi kynslóðum betra búi en við tókum við. Við viljum lifa í vissu um að við og okkar nánustu, búi í samfélagi þar sem allir búa við jöfn lífsskilyrði.
Það er okkar að fylkja liði og knýja fram breytingar. Breytingar sem skila okkur bættu samfélagi. Samfélagi sem byggir á jöfnuði. Samfélagi réttlætis.
Kæru félagar.
Til hamingju með daginn.