Kæra samkunda, formaður BSRB, BHM, KÍ, ASÍ, heilbrigðisráðherra. Ég fer nú alltaf á taugum þegar ég á að ávarpa því ég gleymi alltaf einhverjum svo ég ætla bara að segja: Kæra samkunda. Það er mér heiður að fá að ávarpa ykkur hér á þessu þingi BSRB þar sem ykkar formaður fór svo vel yfir þau stóru og mikilvægu verkefni sem þið hafið staðið í og munuð standa í á næstu misserum.
Það er mín sannfæring að þegar stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins koma saman, að ef það er vilji hjá öllum sem sitja við borðið til þess að hlusta hvert á annað, þó oft sé sýnin ólík, þá skili það framförum fyrir samfélagið. Það er mín sannfæring að frá því þessi ríkisstjórn tók við fyrir 10 mánuðum hafi það skipt máli að við höfum átt reglulega fundi með aðilum vinnumarkaðarins, sveitarfélögunum, ríkissáttasemjara og fleiri aðilum. Til þess að tala saman og öðlast skilning en líka til þess að skila raunverulegum aðgerðum.
Þessir fundir sem við höfum átt þar sem við höfum verið að ræða ólík mál eins og menntamál, fæðingarorlof, stöðu efnahagsmála, skattkerfið, vinnutíma og margt fleira, hafa þegar skilað vissum aðgerðum. Ég nefni hækkun atvinnuleysisbóta og greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa í vor. Ég nefni þá endurskoðun á skatta- og bótakerfinu sem nú stendur yfir. Ég nefni þá staðreynd, af því Elín Björg nefndi hér launahækkanir, að kjararáð hefur verið lagt niður í núverandi mynd og við munum taka upp það fyrirkomulag við ákvörðun launa æðstu embættismanna sem tíðkast annarsstaðar á Norðurlöndum, sem er að þeir fylgi launaþróun hins opinbera markaðar.
Sú tillaga sem mun verða lögð fyrir þingið nú á haustmánuðum skilaði sér úr vinnu þar sem aðilar vinnumarkaðarins, fulltrúar opinbera vinnumarkaðarins, almenna vinnumarkaðarins og Samtaka atvinnulífsins settust niður með fulltrúum stjórnvalda, undir forystu utanaðkomandi formanns. Ég vona að þetta verði að minnsta kosti eitt innlegg í að skapa aukna sátt á vinnumarkaði.
Þegar Elín Björg spurði hér áðan hvað henni þætti mikilvægast, og nefndi að það væru tvö orð, held ég að allur salurinn hafi hugsað með sér „félagslegur stöðugleiki“, því þegar við heyrum þessi orð hugsum við til hennar. Hún er búin að segja okkur þetta svo oft, og var að segja okkur þetta í morgun í útvarpinu.
Þetta er gríðarlega mikilvægt hugtak og ein ákvörðun sem hefur verið tekin og ég vona að eigi eftir að skila árangri er að ef við komum okkur einhverntíman saman um að setja á laggirnar á Þjóðhagsráð þar sem allir þessir aðilar eiga fast sæti, að þar verði ekki bara rætt um efnahagslegan stöðugleika heldur líka félagslegan stöðugleika. Ég tek undir þá sýn að þetta hlýtur ávallt að haldast í hendur. Félagslegur stöðugleiki er jafn mikilvægur og efnahagslegur stöðugleiki, og allt helst þetta í hendur við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar um að við þurfum að hafa þetta jafnvægi efnahags, samfélags og umhverfis.
Af því ég nefndi hér heildarendurskoðun skatta- og bótakerfa og veit að ykkur er ofarlega í huga hvernig við getum stuðlað að auknum jöfnuði í samfélaginu. Til þess hafa stjórnvöld ákveðin tæki, skatta- og bótakerfið er eitt þeirra.
Ég hlýt að nefna að þær breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í og standa fyrir dyrum í tengslum við afgreiðslu fjárlaga núna í haust munu allar vera lóð á þær vogarskálar að auka hér jöfnuð. Að hækka fjármagnstekjuskatt, skattahækkun sem leggst helst á þá sem eiga mest og hafa mest á milli handanna í samfélaginu. Að hækka barnabætur þannig að þær skerðist ekki við lágmarkslaun, eins og nú er, mun skipta máli fyrir tekjulágar barnafjölskyldur. Að hækka persónuafslátt umfram neysluvísitölu skilar sér best til hinna tekjulægri.
Það skiptir máli að þær breytingar sem við gerum þjóni jöfnunarhlutverki og þessar breytingar eru allar skref, kannski ekki nægjanlega stór, en skref sem skipta máli í því verkefni að færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggja að þau tekju- og eignamestu leggi meira af mörkum.
Það eru til fleiri jöfnunartæki en skattkerfið. Hér er staddur heilbrigðisráðherra, hluti af hennar forgangsröðun og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er að draga úr kostnaði sjúklinga í íslensku samfélagi við að sækja sér heilbrigðis- og læknisþjónustu. Því það er svo að þar hafa þeir sem búa hér á Íslandi þurft að borga meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annarsstaðar á Norðurlöndum. Nú hefur verið lögð fram fjármálaáætlun þar sem við gerum ráð fyrir raunverulegum fjármunum til að draga úr kostnaði sjúklinga. Fyrstu skrefin voru stigin með því að lækka tannlæknakostnað aldraðra og öryrkja, uppfæra gjaldskrá sem ekki hafði verið uppfærð í 14 ár núna 1. september síðastliðinn.
Þetta skiptir máli, en ekki síður það sem Elín Björg minntist á í ræðu sinni um heilbrigðiskerfið sem slíkt. Það skiptir máli að við byggjum upp öflugt opinbert heilbrigðis. Þetta er það mál sem hefur verið efst á forgangslista kjósenda núna tvennar kosningar í röð. Þar erum við að byggja upp, ekki síst heilsugæsluna sem verður að öðlast þann sess að verða fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Það skiptir máli bæði fyrir almenning í landinu að eiga greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu á heilsugæslunni. En það skiptir líka máli fyrir kerfið í heild að við nýtum fjármunina sem best.
Síðast en ekki síst skiptir máli að lenda því máli sem deilt hefur verið um í samfélaginu lengi og ljúka uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut. Það er sérstakt fagnaðarefni að þar var tekin fyrsta skóflustungan um síðustu helgi. Það mun reynast mikið framfaraskref fyrir heilbrigðiskerfið á Íslandi, og þar með okkur öll.
Í stjórnmálum er það svo, eins og hjá verkalýðshreyfingunni, að verkefnin eru alltaf ærin. Hér voru nefnd húsnæðismál og í þeirri skýrslu sem Gylfi Zoega hagfræðiprófessor vann fyrir forsætisráðuneytið nú í aðdraganda kjarasamninga nefnir hann tvennt sem hann telur að geti skipt verulegu máli til að auka hér félagslegan stöðugleika og bæta lífskjör. Það eru húsnæðismálin, þar skiptir verulegu máli það sem verkalýðshreyfingin hefur sameiginlega gert í gegnum óhagnaðardrifna leigufélagið Bjarg. Á þeim grunni þarf að byggja áfram og tryggja aukið framboð húsnæðis því það sem við sjáum þegar við förum yfir hagtölur, þegar við förum yfir kennitölurnar, er að þarna er raunverulegur vandi á ferð.
Húsnæðiskostnaður hefur veruleg áhrif á lífskjör fólks í þessu landi. Það er stór hópur ungs fólks sem ekki kemst úr heimahúsum út á húsnæðismarkað. Þar þarf bæði að vera framboð á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði en líka stuðningur til þess að komast inn á séreignamarkað. Þetta eru stór mál sem við þurfum að vinna saman.
Sömuleiðis vil ég nefna vaxtakostnað almennings og kostnað í innlendu bankakerfi. Við eigum von á tillögum um hvernig hægt er að draga úr þeim kostnaði sem skiptir máli fyrir okkur öll að sé sambærilegur við það sem gerist annarsstaðar á Norðurlöndum en er það ekki í dag.
Síðan vil ég nefna vinnumarkaðinn sem heild og réttindi fólks á vinnumarkaði. Þau hafa komist í kastljósið núna vegna fjölmiðlaumfjöllunar en þetta er ekki nýtt ástand. Þar skiptir máli að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman og segi það og geri það af verkum að þetta ástand verði ekki liðið. Þá er ég að tala um brot á fólki á vinnumarkaði, ég er að tala um launastuld, ég er að tala um félagsleg undirboð. Ég er að taka um málefni starfsmannaleiga og ég er að tala um keðjuábyrgð.
Það hafa verið stigin skref, keðjuábyrgð í byggingariðnaði var innleidd núna í vor, lög um jafna meðferð á vinnumarkaði fór í gegnum þingið í vor. Þetta mun skipta mái og hafa áhrif á vinnumarkaðinn en það þarf að gera betur. Það þarf að efla Vinnueftirlitið og Vinnumálastofnun til að sinna og rækja sitt hlutverk.
Hér voru nefnd kynjajafnréttismál og það gleður mig að sjá þessa mynd hér fyrir aftan. Innleiðing jafnlaunavottunar hefur gengið hægar en ég hefði kosið að sjá. Fyrirtækjum og stofnunum hefur nú verið veittur frestur til að innleiða þessa nýju löggjöf. Kynbundinn launamunur á Íslandi 2018 er algerlega óviðunandi og af því við erum efst á frægum lista World Economic Forum þegar kemur að kynjajafnréttismálum verða erlendir blaðamenn alltaf mjög hissa þegar ég segi þeim að það sé enn kynbundinn launamunur á Íslandi og að við séum ekki búin að leysa öll mál.
Annað stórmál í jafnréttismálum sem er ekki mælt á þessum lista er kynbundið ofbeldi og kynbundin áreitni. Ég fagna því frumkvæði sem verkalýðshreyfingin hefur tekið í því að lýsa yfir stríði á hendur kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni og segja einfaldlega að þetta verði ekki liðið. Þetta er annað verkefni sem við þurfum að vinna saman, aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld. Við eigum að taka á þessu með afgerandi hætti og þetta er eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar, sem vinnur nú að þessu verkefni þvert á öll ráðuneyti.
Þriðja málið sem tengist kynjajafnrétti er máli sem BSRB hefur verið ötult við að tala um, sem er hvernig við getum, hvort sem við erum karlar eða konur, átt fjölskyldu og verið í vinnu. Ég segi það gjarnan þegar ég er spurð, ég væri ekki í því starfi sem ég er í dag ef ekki hefði verið fyrir þær konur og þá karla sem börðust fyrir því og tóku pólitískar ákvarðanir, oft umdeildar, um að byggja hér upp leikskólakerfi þannig að börnin fái dagvistun á eðlilegum tíma. Þau börðust fyrir fæðingarorlofi þannig að það þætti eðlilegt að fara í fæðingarorlof og snúa svo aftur í sitt starf og hafa um leið þennan tíma til að sinna börnum sínum og fjölskyldu
Þarna hefur BSRB verið í fararbroddi og eiga þakkir skyldar fyrir að berjast fyrir þessu mikilvæga verkefni sem er kannski stóra málið fyrir jafnrétti kynjanna og betra samfélag fyrir okkur öll. Einmitt í þessu hraða samfélagi þar sem allir hlaupa allan daginn á hamstrahjólinu skiptir máli að staldra við og velta fyrir sér hvað skiptir í raun og veru máli. Ég segi það hiklaust að ég væri ekki í því starfi sem ég er í dag ef ég hefði ekki getað átt sex mánuði með öllum þremur sonum mínum.
Kæru gestir. Opinber þjónusta skiptir máli. Stundum er talað illa um hið opinbera kerfi og látið eins og þar sitji fólk og nagi blýanta á kostnað skattgreiðenda. Það er ekki svo. Það skiptir nefnilega máli hvernig við tölum um hlutina. Fólki í hinu opinbera kerfi sinnir hinu mikilvæga hlutverki almannaþjónustu. Það er mín skoðun að almannaþjónustan sé ein af undirstöðum lýðræðisríkisins. Af hverju segi ég það? Jú, hugsum aðeins. Almannarýmið er mikilvægur staður fyrir hvert samfélag. Það er staður þar sem ólíkar stéttir og ólíkir hópar koma saman á jafnræðisgrundvelli.
En almannarýmið er ekki aðeins Austurvöllur eða Lystigarðurinn á Akureyri. Almannarýmið eru til dæmis grunnskólarnir. Kannski eini staðurinn í samfélaginu þar sem við komum öll saman. En almannarýmið er líka heilsugæslan og lögreglustöðin. Kannski ekki vegna þess að við séum öll alltaf þar, vonandi ekki, en rými sem við eigum sameiginlega, rými sem við getum reitt okkur á. Undirstöður í samfélaginu sem við getum treyst að séu til staðar þegar eitthvað bjátar á.
Almannarýmið er líka strætisvagninn og þess vegna segi ég að almenningssamgöngur séu ekki bara góðar og mikilvægar út frá umhverfissjónarmiðum, þær eru siðmenningartæki. Þær kenna okkur það þegar við sitjum öll saman í almenningssamgöngum að við erum ólík, en við erum eitt samfélag.
Það er áskorun að berjast gegn því að hér verði margar þjóðir í þessu landi, í þessu samfélagi. Almannaþjónustan er eitt tæki til að tryggja það. Almannaþjónustan tvinnar saman hina ólíku þræði samfélagsins, tryggir að við sitjum við sama borð og njótum jafnræðis. Það að við njótum sambærilegrar þjónustu tryggir jöfn tækifæri okkar allra. Tækifæri til að lifa, starfa og taka þátt í samfélaginu. En hún tryggir líka að við deilum samfélagi sem er undirstaða þess að lýðræðið dafni. Kannski er það ein af stóru áskorunum samtímans í þessu hraða samfélagi þar sem við sjáum blikur á lofti ekki bara á Íslandi heldur ekki síður og miklu heldur í alþjóðasamfélaginu í kringum okkur. Við þurfum að huga að því hvernig við getum sem best varðveitt lýðræðið. Þar skiptir almannaþjónustan máli.
Ég vil að lokum þakka fráfarandi formanni, Elínu Björgu Jónsdóttur, kærlega fyrir gott og lærdómsríkt samstarf. Það rann upp fyrir mér í morgun þegar ég var að hlusta á viðtal við hana á Rás 1 að hún hefur valið sér frábæran tíma til að gegna þessu embætti. Það er að segja hún tók við rétt eftir hrun á mjög krefjandi tíma í lýðveldissögunni.
Ég vil segja að okkar samstarf hefur verið einstaklega gott og þar fer góður leiðtogi frá borði. Um leið óska ég hinni nýju forystu sem hér verður kjörin á þessu þingi alls velfarnaðar í vandasömum störfum og vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við ykkur hjá BSRB.
Takk fyrir.