Stjórn BSRB fordæmir harðlega misnotkun stöndugra fyrirtækja á hlutabótaleiðinni og öðrum úrræðum stjórnvalda vegna COVID-19 faraldursins. Úrræðunum er ætlað að bjarga fyrirtækjum sem róa lífróður vegna faraldursins. Þeim er ekki ætlað að koma fyrirtækjum sem lenda ekki í teljandi tekjutapi vegna hans betur út úr tímabundinni niðursveiflu. Fyrirtæki sem hafa efni á að greiða eigendum arð eða kaupa eigin bréf eru augljóslega ekki í þeirri stöðu að þurfa á þessari aðstoð að halda.
Stjórn BSRB hvetur fyrirtæki sem hafa nýtt sér úrræðin án þess að hafa raunverulega þörf fyrir þau til að endurgreiða Vinnumálastofnun tafarlaust og leiðrétta laun starfsmanna, hafi þau verið skert á einhvern hátt vegna þessara aðgerða. Þá bendir stjórnin á að Vinnumálastofnun hefur heimildir til að krefjast endurgreiðslu hafi fyrirtækin ekki haft raunverulega þörf fyrir aðstoð úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar. Full ástæða er fyrir stofnunina að fara vel yfir öll tilvik þar sem grunur leikur á misnotkun og krefjast fullrar endurgreiðslu.
Gríðarlegir fjármunir úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar hafa verið settir í þessar björgunaraðgerðir. Misnotkun á þessum úrræðum jafngildir því að verið sé að taka fé frá öðrum samfélagslega mikilvægum verkefnum. Við það verður ekki unað.
Það er mikill skilningur á því í samfélaginu að verja þurfi störf með því að bjarga fyrirtækjum sem verða mörg hver fyrir gríðarlegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins. Það er hins vegar engin þolinmæði í garð þeirra sem misnota úrræðin. Það er eitt af því sem neytendur ættu að hafa í huga þegar þeir velja við hvaða fyrirtæki þeir ætla að eiga viðskipti í framtíðinni.
Reykjavík, 8. maí 2020