Stjórn BSRB fagnar því að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að heimila ekki rekstur einkarekins sjúkrahúss með yfirlýsingu um að hann ætli að hafna beiðni Klíníkurinnar. Bandalagið hefur ítrekað varað við einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það er því ánægjulegt að heilbrigðisráherra ætli ekki að láta undan þrýstingi þeirra sem vilja hagnast á sjúklingum.
Stjórnin varar jafnframt við því að hér verði til tvöfalt heilbrigðiskerfi. Efla þarf heilbrigðiskerfið verulega og vinna svo um munar á biðlistum í aðgerðir. Þá þurfa stjórnvöld að draga verulega úr kostnaðarþátttöku. Markmiðið á að vera heilbrigðiskerfi sem rekið er fyrir skattfé þar sem sjúklingar fá þá þjónustu sem þeir þurfa án þess að greiða sérstaklega fyrir hana.
Reykjavík, 24. mars 2017