Formannaráð BSRB krefst þess að fjárveitingar til almannaþjónustunnar verði auknar verulega enda er það lykillinn að því að koma íslensku samfélagi út úr þeirri erfiðu stöðu sem leiðir af heimsfaraldrinum. Reynslan af bankakreppunni 2008 sýnir að það voru mistök að skera niður í almannaþjónustu og af þeim mistökum verðum við að læra. Starfsfólk almannaþjónustunnar hefur verið undir gríðarlegu álagi og undirmönnun er víða vandamál. Það er pólitísk ákvörðun að vanfjármagna almannaþjónustuna. Formannaráð BSRB hafnar þeirri leið enda dregur hún úr velsæld og möguleikum til verðmætasköpunar.
Eignaójöfnuður fer vaxandi og þeir sem mest eiga verða að leggja meira til samfélagsins. Frá því heimsfaraldurinn skall á hafa eignir heimilanna aukist um á þriðja hundrað milljarða króna og langmest af þeirri aukningu fór til þeirra allra ríkustu.
Formannaráð BSRB kallar eftir auðlegðarskatti á stóreignafólk og að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður. Á síðasta ári voru arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna þær hæstu í sögunni, 21,5 milljarðar króna. Á sama tíma greiddu fyrirtækin aðeins innan við fjórðung af þeirri fjárhæð í ríkissjóð fyrir afnotin af þessari sameiginlegu auðlind íslensku þjóðarinnar. Formannaráðið kallar eftir því að veiðigjöldin verði aukin verulega og tekjur af þeim notaðar til að auka almenna velsæld.
Reykjavík, 18. nóvember 2021