Formannaráð BSRB skorar á stjórnvöld að ganga á undan með góðu fordæmi á vinnumarkaði og ganga að kröfum bandalagsins um styttingu vinnuvikunnar án launaskerðingar í kjarasamningsviðræðum sem nú standa yfir. Kjarasamningar nær allra 22 þúsund félagsmanna BSRB hafa verið lausir frá 1. apríl og fullkomlega óásættanlegt hversu hægt hefur gengið í viðræðum um nýjan kjarasamning við ríki og sveitarfélög. Megináherslur BSRB í viðræðunum eru skýrar; að allir geti lifað af laununum sínum og stytting vinnuvikunnar.
Formannaráð BSRB kallar eftir því að viðsemjendur semji án frekari tafa um styttingu vinnuvikunnar þar sem horft er til þeirrar aðferðafræði sem viðhöfð var í tilraunaverkefnum ríkis og Reykjavíkurborgar. Stytting vinnuvikunnar skilar gagnkvæmum ávinningi fyrir bæði starfsfólk og atvinnurekendur. Starfsfólk í almannaþjónustu upplifir mikið álag, sér í lagi vaktavinnufólk. Sífellt fleiri finna fyrir sjúklegri streitu og einkennum kulnunar og hverfa jafnvel af vinnumarkaði í lengri eða skemmri tíma með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Tilraunaverkefni sýna að stytting vinnuvikunnar er góð leið til að vinna gegn þessari þróun. Þau sýna líka að styttingin bitnar ekki á afköstum eða þeirri þjónustu sem starfsfólk í almannaþjónustu veitir.
Formannaráð BSRB hafnar því alfarið að stytting vinnuvikunnar kalli á eftirgjöf á kaffitímum eða öðrum réttindum starfsmanna. Kostir styttingar eru augljósir fyrir atvinnurekendur ekki síður en starfsfólk enda bein verðmæti fólgin í bættri líðan starfsfólks og lægri tíðni veikinda.
Reykjavík, 13. september 2019