Formannaráð BSRB fagnar því að skattbyrði þeirra tekjulægstu lækki samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs en lýsir áhyggjum af því að skattalækkunin hefur ekki verið fjármögnuð. Kostnaðurinn við skattkerfisbreytingarnar verður um 21 milljarður á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda.
Formannaráð BSRB telur að mæta eigi því tekjutapi sem ríkissjóður verður fyrir vegna þessa með aukinni skattheimtu af þeim sem hæstar tekjur hafa, með auðlindagjaldi og hærri fjármagnstekjuskatti. Það er ótækt með öllu að tekjutapið leiði til niðurskurðar og aðhalds í opinberri þjónustu, sem mun leiða af sér lakari þjónustu við almenning og aukið álag á starfsfólk.
Formannaráðið vill að tryggt verði að aukin útgjöld til barnabóta skili sér í vasa foreldra. Afgangur verður af fjárheimildum vegna barnabóta á yfirstandandi ári þar sem skerðingarhlutföll eru allt of lág. Formannaráð BSRB krefst þess að hækkun skerðingarmarka verði umfram kjarasamningsbundnar launahækkanir svo aukið fé í þennan mikilvæga málaflokk skili sér sannarlega til barnafjölskyldna.
Formannaráð BSRB fagnar því að lengja eigi fæðingarorlofið en kallar eftir því að lengingin skiptist jafnt milli foreldra. Þá þarf að tryggja að hámarksgreiðslur hækki til samræmis við launaþróun og tryggja að greiðslur um eða undir lágmarkslaunum skerðist ekki.
Reykjavík, 13. september 2019