Aðalfundur BSRB mótmælir harðlega ákvörðunum opinberra stofnana og sveitarfélaga um að segja upp lægst launaðasta starfsfólkinu í hagræðingarskyni. Dæmi þar um er Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Seltjarnarnesbær og Hveragerði. Þjónustan sem starfsmennirnir veita nú í ræstingum og mötuneyti mun ekki vera lögð af heldur verður henni framvegis útvistað til einkaaðila.
Verkefnin eru því ekki að hverfa heldur er verið að færa þau til annarra á tímum þar sem álag á starfsfólk hefur stóraukist vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Faraldurinn hefur varpað ljósi á mikilvægi góðrar opinberrar þjónustu og virði opinberra starfsmanna. Stjórnendur ættu því að leggja metnað sinn í að treysta stoðir hennar og þakka starfsfólki sínu í verki fyrir þeirra mikilvæga framlag í baráttunni.
Aðalfundur BSRB skorar á ríki og sveitarfélög að falla frá áformum um uppsagnir á tímum þegar stærsta áskorunin sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir er atvinnuleysi sem er nú í sögulegu hámarki. Reynslan sýnir að ef á annað borð næst sparnaður með slíkum aðgerðum er hann til skamms tíma. Afleiðingarnar eru verri þjónusta, verri kjör lægst launuðu starfsmannanna og aukið álag.
Reykjavík, 28. maí 2020