Aðalfundur BSRB varar eindregið við einkavæðingu náms á framhaldsskólastigi með sameiningu Fjölbrautarskólans við Ármúla við Tækniskólann. Í Fjölbrautarskólanum við Ármúla fer fram kennsla í greinum mikilvægra heilbrigðisstétta á borð við sjúkraliða, læknaritara, heilbrigðisritara, lyfjatækna, heilsunuddara, tanntækna og fleiri sem starfa nær eingöngu hjá stofnunum ríkisins. Engin rök hníga að því að kennslu í þessum greinum sé best fyrir komið í skóla sem rekinn er af einkaaðilum.
Fundurinn kallar eftir því að unnið verði að stefnumótun vegna starfsnáms í víðara samhengi með samráði við hagsmunaaðila í stað þess að gera ómarkvissar breytingar sem virðast ekki byggja á skýrri sýn um eflingu öflugs starfsnáms. Aðalfundurinn varar við því að starfsnámi verði komið fyrir hjá einkaaðilum og að þeim verði látið eftir að móta stefnu í þessum mikilvægu námsgreinum.
Reykjavík, 17. maí 2017