Aðalfundur BSRB fordæmir þann drátt sem orðið hefur á því að ríkið gangi til kjarasamninga við lögreglumenn. Landssamband lögreglumanna er eina aðildarfélag bandalagsins sem ekki hefur náð saman um gerð kjarasamnings við ríkið. Lögreglumenn, félagar okkar sem starfa í framlínunni nú sem endranær hafa því verið án kjarasamnings í 14 mánuði, sem er með öllu óásættanlegt.
Kröfur til lögreglunnar hafa aldrei verið meiri og verkefnin hafa orðið bæði flóknari og erfiðari. Þrátt fyrir þetta hefur undirmönnun verið viðvarandi árum saman sem leiðir til aukins álags á þá lögreglumenn sem standa vaktina. Aðalfundurinn hvetur samninganefnd ríkisins til að ganga til samninga við Landssamband lögreglumanna án frekari tafa og tryggja þessari mikilvægu stétt þær kjarabætur sem hún á skilið.
Reykjavík, 28. maí 2020