Ályktun 46. þings BSRB um #metoo

Kynbundið ofbeldi er meðal útbreiddustu mannréttindabrota á heimsvísu og hefur það aukist til muna síðan heimsfaraldurinn skall á fyrir tveimur árum. Áreitni og annað ofbeldi gegn konum er ekki óumflýjanlegt heldur skal uppræta það með samstilltum aðgerðum þar sem ráðist er að rót vandans.

46. þing BSRB kallar eftir aðgerðum stjórnvalda og atvinnurekenda til að fyrirbyggja megi ofbeldi á vinnumarkaði og í einkalífinu. Mikilvægt er að til staðar sé stuðningur og farvegur fyrir þolendur áreitni og ofbeldis en það er tímabært að athygli og ábyrgð verði í auknum mæli beint að gerendum. Við viljum ekki fleiri brot og við viljum ekki að fleiri þolendur þurfi að stíga fram í leit að réttlæti með því að segja sína #metoo sögu. Þolendur áreitni og ofbeldis eru risastór hópur í samfélagi okkar sem á fátt annað sameiginlegt en að vera í flestum tilvikum konur. Fatlaðar konur, konur af erlendum uppruna og transfólk eru í mestri hættu á að verða fyrir ofbeldi.

46. þing BSRB gerir þá kröfu að starfsfólk og stjórnendur fái reglubundna fræðslu um kynjafræði, fjölbreytileika, heilbrigða vinnustaðamenningu og heilbrigð samskipti. Sömuleiðis að fjölgað verði úrræðum fyrir gerendur í ofbeldismálum til að koma megi í veg fyrir frekari brot.

#metoo bylgjurnar geta ýft upp gömul sár og því hvetur 46. þing BSRB atvinnurekendur til að veita þolendum svigrúm til að leita sér aðstoðar til að vinna úr áföllum sínum. Við líðum ekki lengur að þolendur þurfi að taka pokann sinn eða bera byrðarnar ein af ofbeldinu sem þau verða fyrir heima eða í vinnunni.

Reykjavík, 25. mars 2022

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?