Ályktun 46. þings BSRB um heilbrigðiskerfið og einkavæðingu

Mikill meirihluti landsmanna vill að heilbrigðisþjónustan sé alfarið í opinberum rekstri og hafnar aukinni einkavæðingu. Frekari einkavæðing mun ekki draga úr kostnaði hins opinbera við heilbrigðisþjónustu og mun draga úr þeirri yfirsýn sem nauðsynleg er til að skipuleggja heilbrigðiskerfið í þágu almannahagsmuna. Það er óásættanlegt að fjármunir sem ríkið ætlar til þjónustu við sjúklinga renni í vasa einkaaðila með arðgreiðslum.

46. þing BSRB skorar á stjórnvöld að efla heilbrigðiskerfið og snúa af leið frekari einkavæðingar. Þingið krefst þess að íslenskt heilbrigðiskerfi sé aðgengilegt öllum án tillits til greiðslugetu eða efnahags enda ber að fjármagna heilbrigðiskerfið úr sameiginlegum sjóðum allra landsmanna. Undirfjármögnun heilbrigðiskerfisins er staðreynd enda útgjöld til málaflokksins hlutfallslega lægst hér af öllum Norðurlöndunum. Úr þessu þarf að bæta tafarlaust. Sjúkrastofnanir ættu ekki að þurfa að reiða sig á fjárframlög eða tækjakaup af hendi félagasamtaka eða einstaklinga.

Heimsfaraldurinn jók á skilning landsmanna á mikilvægi grunnstoða samfélagsins og augljóst að fjárfesting í heilbrigðisþjónustu og öðrum grunninnviðum er gríðarlega mikilvæg fyrir allt samfélagið. Þar verður sérstaklega að gera átak í að efla heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni enda nauðsynlegt að öllum sé tryggt betra og jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu. Þá þarf að grípa til aðgerða til að tryggja að starfsfólk þjónustunnar hverfi ekki til annarra starfa og hæft fólk fáist til starfa þar sem þörf er á til þess að vandinn dýpki ekki enn frekar.

46. þing BSRB telur óásættanlegt að stjórnvöld horfi nú til fjölbreyttari rekstarforma í kjölfar þessa mikla álagstímabils sem faraldurinn hafði í för með sér á allt heilbrigðiskerfið. Hætt er við að teknar verði ákvarðanir án þess að fyrir liggi greining á áhrifum þess til langs tíma. Ákvarðanir stjórnvalda mega ekki byggja á skammtímahagsmunum eða hagsmunum hinna fáu heldur þarf að marka stefnu til lengri tíma þar sem meðal annars er lagt mat á kostnað, áhrif á notendur þjónustunnar og áhrifin á starfsfólkið sem sinnir henni. Þannig má tryggja sem besta nýtingu fjármuna, auknar forvarnir til að tryggja megi góða heilsu og framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.

Reykjavík, 25. mars 2022

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?