45. þing BSRB skorar á stjórnvöld að uppfylla þau markmið sem þau hafa skuldbundið sig til á alþjóðavettvangi og vinna með markvissum hætti að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í umhverfismálum.
Þingið skorar á sveitarfélög um land allt að bæta og samræma sorphirðu og flokkun til að minnka sorp til urðunar og koma til móts við vaxandi umhverfisvitund almennings.
Þá skorar 45. þing BSRB á stjórnvöld að beita sér fyrir því að minnka plastnotkun í framleiðslu og iðnaði umtalsvert og hvetja til notkunar umhverfisvænna umbúða í stað plastpoka í verslunum.
45. þing BSRB gerir þær kröfur að atvinnurekendur sjái til þess að starfsfólk búi við umhverfisvænar vinnuaðstæður í starfi sínu. Auðvelda þarf starfsfólki að nota vistvæna samgöngumáta á leið í og úr vinnu og í vinnutíma, til dæmis með því að bjóða starfsfólki samgöngustyrki og/eða aðgang að vistvænum farartækjum.
Reykjavík, 19. október 2018