Skeiða- og Gnúpverjahreppur í 1. sæti sveitarfélaga ársins 2024

Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Hótel Nordica

Árlega eru veitt verðlaun og viðurkenning fyrir þau sveitarfélög sem verma fjögur efstu sætin í niðurstöðum könnunarinnar Sveitarfélag ársins. Niðurstöður könnunarinnar, sem fyrst var framkvæmd árið 2022, veita mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi á vinnustöðum sveitarfélaganna og er meðal annars ætlað að vera hvatning til stjórnenda að veita starfsumhverfinu meiri athygli og ráðast í umbótaverkefni þar sem þess er þörf.

 

Í ár hlutu fjögur sveitarfélög nafnbótina Sveitarfélag ársins 2024:

1. sæti Skeiða- og Gnúpverjahreppur
2. sæti Sveitarfélagið Skagaströnd
3. sæti Bláskógarbyggð
4. sæti Sveitarfélagið Vogar

 

Útnefningin er byggð á niðurstöðum viðhorfskönnunar félagsfólks 10 bæjarstarfsmannafélaga hjá sveitarfélögum á þeirra félagssvæðum. Þátttakan í könnuninni hefur aldrei verið meiri en í ár, en ríflega 1900 manns tóku þátt.

Niðurstöður könnunarinnar sýna meðal annars að starfsfólk sveitarfélaganna er almennt ánægt með stjórnendur, stjórnun, starfsskilyrði og starfsanda en tæplega þriðjungur er óánægður með launakjör. Talsverðrar óánæ´gju gætir með hljóðvist einkum á leikskólum. Þá má sjá óánægju fólks í öryggis- og eftirlitsstörfum með matar- og kaffiaðstöðu og vinnu- og skrifstofurými.
 
Eftirfarandi bæjarstarfsmannafélög BSRB standa að könnuninni í samvinnu við Gallup: Starfsmannafélag Mosfellsbæjar, Starfsmannafélag Vestmannaeyja, Starfsmannafélag Garðabæjar, Starfsmannafélag Suðurnesja, Starfsmannafélag Kópavogs, Starfsmannafélag Hafnarfjarðar, Kjölur, stéttarfélag starfsmanna í almannaþjónustu, FOSS, stéttarfélag í almannaþjónustu, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi

 

 

 

 

 


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?