Allt launafólk þarf að njóta breytinga á vinnutíma eða aukins sveigjanleika

Magnus Gissler framkvæmdastjóri NFS, Mattias Dahl aðstoðarframkvæmdastjóri sænsku Samtaka atvinnulífsins, Therese Svanström, formaður TCO, Johan Lindholm formaður LO, Antti Palola formaður STTK og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB

Í síðustu viku fór fram ráðstefna í Stokkhólmi undir yfirskriftinni: Sveigjanleiki í vinnu á hverra forsendum? Að ráðstefnunni stóðu NFS, norræn regnhlífarsamtök launafólks og TCO, heildarsamtök í Svíþjóð.

 

Mikill áhugi á styttingu vinnuvikunnar á Íslandi

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, fomaður BSRB, tók þátt í pallborði á ráðstefnunni þar sem hún fjallaði um styttingu vinnuvikunnar og reynsluna frá Íslandi. Hún ræddi þar m.a. um styttinguna sem mikilvægt jafnréttismál og mikilvægi þess að allt fólk á vinnumarkaði njóti breytinga á vinnutíma, ekki bara þau sem eru hærra launuð. Fjarvinna og sveigjanlegur vinnutími stendur einkum til boða í þeim geirum þar sem fólk er hærra launað, eins og í skrifstofustörfum. Mikilvægt er að huga að öllum stéttum hvað þetta varðar, þannig að allt launafólk njóti breytinga á vinnutíma eða aukins sveigjanleika.

Það kom bersýnilega í ljós á ráðstefnunni að Ísland er komið lengst landa á Norðurlöndum í umræðu um styttingu vinnuvikunnar. Þó eru einstök stéttarfélög þar, sérstaklega í Svíþjóð, farin að setja fram kröfur um styttri vinnuviku.

 

Breytingar á vinnumarkaði eftir COVID haft áhrif á ólíka hópa

Á ráðstefnunni var fjallað var um þær breytingar sem orðið hafa á vinnutíma í kjölfar heimsfaraldurs og áhrif þeirra á ólíka hópa. Fjarvinna hefur aukist verulega á meðal ríkja OECD og dregið hefur úr kynjamun en áður voru karlar frekar í fjarvinnu.

Fjarvinna að hluta getur verið jákvæð. Á ráðstefnunni kom til dæmis fram að á meðal verkfræðinga í Svíþjóð hefur aukin fjarvinna leitt til þess að fleiri konur eru í fullu starfi. Í Bandaríkjunum hefur aukin fjarvinna haft þau áhrif að fleira fólk með fötlun og skerta starfsgetu er á vinnumarkaði en áður. Rannsóknir sýna engu að síður að 100% heimavinna hefur neikvæð áhrif á heilsu og hamingju og geta neikvæðar hliðar heimavinnunar falist í auknu álagi og óljósari skila milli vinnu og einkalífs.


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?