Í síðustu viku fór fram ráðstefna í Stokkhólmi undir yfirskriftinni: Sveigjanleiki í vinnu á hverra forsendum? Að ráðstefnunni stóðu NFS, norræn regnhlífarsamtök launafólks og TCO, heildarsamtök í Svíþjóð.
Mikill áhugi á styttingu vinnuvikunnar á Íslandi
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, fomaður BSRB, tók þátt í pallborði á ráðstefnunni þar sem hún fjallaði um styttingu vinnuvikunnar og reynsluna frá Íslandi. Hún ræddi þar m.a. um styttinguna sem mikilvægt jafnréttismál og mikilvægi þess að allt fólk á vinnumarkaði njóti breytinga á vinnutíma, ekki bara þau sem eru hærra launuð. Fjarvinna og sveigjanlegur vinnutími stendur einkum til boða í þeim geirum þar sem fólk er hærra launað, eins og í skrifstofustörfum. Mikilvægt er að huga að öllum stéttum hvað þetta varðar, þannig að allt launafólk njóti breytinga á vinnutíma eða aukins sveigjanleika.
Það kom bersýnilega í ljós á ráðstefnunni að Ísland er komið lengst landa á Norðurlöndum í umræðu um styttingu vinnuvikunnar. Þó eru einstök stéttarfélög þar, sérstaklega í Svíþjóð, farin að setja fram kröfur um styttri vinnuviku.
Breytingar á vinnumarkaði eftir COVID haft áhrif á ólíka hópa
Á ráðstefnunni var fjallað var um þær breytingar sem orðið hafa á vinnutíma í kjölfar heimsfaraldurs og áhrif þeirra á ólíka hópa. Fjarvinna hefur aukist verulega á meðal ríkja OECD og dregið hefur úr kynjamun en áður voru karlar frekar í fjarvinnu.
Fjarvinna að hluta getur verið jákvæð. Á ráðstefnunni kom til dæmis fram að á meðal verkfræðinga í Svíþjóð hefur aukin fjarvinna leitt til þess að fleiri konur eru í fullu starfi. Í Bandaríkjunum hefur aukin fjarvinna haft þau áhrif að fleira fólk með fötlun og skerta starfsgetu er á vinnumarkaði en áður. Rannsóknir sýna engu að síður að 100% heimavinna hefur neikvæð áhrif á heilsu og hamingju og geta neikvæðar hliðar heimavinnunar falist í auknu álagi og óljósari skila milli vinnu og einkalífs.