Sonja endurkjörin formaður BSRB

Sonja Ýr endurkjörn formaður BSRB

Sonja Ýr Þorbergsdóttir var í dag endurkjörin formaður BSRB til næstu þriggja ára á 47. þingi BSRB. Þriggja daga þingi BSRB sem fram fór í Reykjavík lauk um miðjan dag. Yfirskrift þingsins var Afl í þágu almennings.

Eitt meginverkefni þings BSRB felst í mótun áherslna bandalagsins með gerð stefnu til næstu þriggja ára eða þar til næsta þing er haldið. Stefnan er grundvöllur alls starfs bandalagsins næstu árin og gafst góður tími á þinginu til að vinna stefnuna í fjórum málefnahópum.

Sonja var ein í framboði til formanns, en hún var fyrst kjörin formaður bandalagsins á 45. þingi BSRB í október 2018. Á þinginu var Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, kjörinn nýr 1. varaformaður bandalagsins. Þá var Arna Jakobína Björnsdóttir, formaður Kjalar stéttarfélags í almannaþjónustu, endurkjörin í embætti 2. varaformanns BSRB.

 

„Það er ekki bara hér á landi sem mörg leitast við að svara spurningunum um hvað hafi farið úrskeiðis í samfélaginu – hvenær hafi verið farið útaf sporinu – hvers vegna fólki líði verr – hvers vegna dregið hafi úr félagslegri samheldni – hvers vegna ofbeldi sé að aukast,“ sagði Sonja í ávarpi sínu.

„Fjöldinn allur af rannsóknum sýna að ástæðan sé efnahagsástandið og efnahagsstjórnin – að byggt hafi verið til lengri tíma á efnahagsstefnu sem þjónar ekki fólki heldur fjármagni. Að niðurskurður í velferðarþjónustu hafi neikvæð áhrif á líðan og auki veikindi. Að skýr tengsl séu á milli ójöfnuðar, slæmrar efnahagslegar og félagslegar stöðu og þunglyndis, kvíða, félagslegs óstöðugleika og óróleika. Að efnahagsmódelin séu úr sér gengin og að stundin sé nú runnin upp til að forgangsraða þannig að grundvallarkerfin verði styrkt,“ sagði Sonja og bætti við að verði ekki snúið af þessari braut muni misskipting tekna og eigna vaxa enn meira. „Samþjöppun auðs muni hafa enn skaðlegri afleiðingar, stéttskipting aukast og félagsleg samheldni minnka enn frekar.“

Hægt er að lesa ávarp Sonju í heild sinni hér

 

Gestir á þingsetningu

Ríkt traust milli aðila

Í setningarathöfn sl. miðvikudag ávarpaði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra þingið. Hann sagði ríkisstjórnina hafa lagt mikla áherslu á gott samstarf við samtök launafólks síðustu ár. „Þeir samningar sem undirritaðir voru á almennum markaði í vor og nefndir hafa verið stöðugleikasamningarnir eru gríðarlega mikilvægur þáttur í baráttunni við verðbólguna. Ekki aðeins vegna þess að niðurstaðan var hófsöm heldur ekki síður vegna þess að samningarnir fólu í sér sameiginlega sýn á hvert meginvandamálið væri: Verðbólgan. Aðilar hringinn í kringum samningaborðið á almennum og opinberum markaði sýndu framtíðarsýn, sýndu hugrekki og síðast en ekki síst sýndu samningarnir að það ríkti traust milli aðila. Og það er kannski stærsti sigurinn,“ sagði Sigurður Ingi.

 

Almannaþjónustan heldur samfélaginu saman

Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra, ávarpaði einnig þingið og sagði staðreynd að forsenda blómlegs atvinnulífs séu samfélagslegir innviðir, almannaþjónusta. „Talið um báknið og um að of mörg vinni hjá hinu opinbera snýst í raun um atlögu að þessum samfélagsinnviðum og þeirri samfélagsgerð sem leggur áherslu á að velferð, menntun og heilbrigðisþjónusta eigi að standa öllum til boða óháð efnahag. Of oft er talað niður til heilu stéttanna sem, frá morgni til kvölds, sinna mikilvægum og krefjandi verkefnum í þágu samfélagsins. Almannaþjónustan er samfélagið og samfélagið gerir atvinnulífinu kleift að starfa. Hinn svokallaði frjálsi markaður gleymir því stundum að opinber þjónusta getur ekki valið sig frá verkefnum, Við hættum ekki bara að slökkva elda, sinna sjúkum og slösuðum, sinna börnum, öldruðum, mennta þjóðir og rannsaka og vakta veður, náttúruvá og vistkerfi. Það getur einkageirinn gert, hann bara ákveður að hætta verkefnum ef þau eru flókin eða erfið eða skila ekki hagnaðinum, gróðanum sem lagt var upp með. Almannaþjónustan tekur á öllu hinu, öllu því fjölmarga sem er of mikilvægt til að láta hinn svokallaða markað leysa. Almannaþjónustan er það sem heldur samfélaginu saman,“ sagði Svandís.

 

Verkalýðshreyfingin mesta framfaraaflið

Finnbjörn Hermannsson forseti ASÍ gerði verkalýðshreifinguna að umtalsefni í ávarpi sínu en hann endaði setningarathöfn þingsins.

„Ég ætla að fullyrða að verkalýðshreyfingin í hverri mynd sem hún er og hvað hún heitir er eitt mesta framfaraafl sem íslenskt samfélag á. Verkalýðshreyfingin er einnig stærstu mannúðarsamtök sem starfa hér á landi. Við rekum líka velferðarkerfi, afþreyingakerfi í formi orlofsheimila og styrkjakerfa.“

Finnbjörn nefndi nokkur grundvallarmál sem verkalýðshreyfingin þurfi að móta skýra afstöðu til og taka upp baráttu vegna: „Hrópleg misskipting þjóðarauðsins sem skapað hefur fámenna, ofurríka yfirstétt og lagt hefur drög að lénskerfi í landinu. Eignarhald á Íslandi og auðlindum þess. Varðstaða um opinbert eignarhald og stjórn á framleiðslu og miðlun raforku, jarðvarma og ferskvatns. Verði ekki brugðist við áformum peningavaldsins og skósveina þess í stétt stjórnmálafólks verður þessum eignum okkar, sem þjóð, komið í hendur útvaldra. Þessum gæðum verður beinlínis stolið; leikfléttan í kringum kvótakerfið og framsalið verður endurtekin" sagði Finnbjörn.

 

Ný stjórn kjörin

Stjórn BSRB samanstendur af formanni, 1. og 2. varaformanni auk sex meðstjórnenda. Þau sex sem kjörin voru í stjórn á þinginu eru:

  • Árný Erla Bjarnadóttir FOSS
  • Gunnsteinn R. Ómarsson Sameyki
  • Jóhanna Fríður Bjarnadóttir Póstmannafélags Íslands
  • Karl Rúnar Þórsson Starfsmannafélag Hafnarfjarðar
  • Marta Ólöf Jónsdóttir Starfsmannafélag Kópavogs
  • Sandra B. Franks Sjúkraliðafélag Íslands

 

Þá voru alls sjö kjörnir varamenn í stjórn BSRB. Það voru þau:

    • Bjarni Ingimarsson Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
    • Unnar Örn Ólafsson Félag flugmálastarfsmanna ríkisins
    • Edda Davíðsdóttir Starfsmannafélag Mosfellsbæjar
    • Guðbjörn Guðbjörnsson Tollvarðafélag Íslands
    • Trausti Björgvinsson Starfsmannafélag Suðurnesja
    • Unnur Sigmarsdóttir Starfsmannafélag Vestmannaeyja
    • Guðbrandur Jónsson, Félag starfsmanna stjórnarráðsins

       


Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?