Fyrir nokkru leitaði Starfsmannafélag Vestmannaeyja eftir aðstoð lögfræðinga BSRB vegna álitamáls sem hafði komið upp og varðaði starfskjör umsjónarmanns fasteigna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands sem taldi sig hafa verið hlunnfarinn um árabil. Umsjónarmaðurinn hafði þá nýlega farið í leyfi frá störfum og hafði afleysingamaður verið ráðinn í hans stað. Sá starfsmaður var ráðinn á allt öðrum og mun betri kjörum heldur en umsjónarmaðurinn sem um ræðir. Umsjónarmaðurinn taldi það vísbendingu um að hann hafi notið lakari kjara en hann ætti að njóta.
Í ljós kom að hinn nýráðni starfsmaður var bæði á bakvaktarálagi utan hefðbundins vinnutíma og fékk greiðslur fyrir útkall þegar svo bar undir, eins og kjarasamningur gerir ráð fyrir en umsjónarmaðurinn hafði ekki verið með slík kjör. Um árabil hafði hann þó sinnt útköllum allan sólarhringinn og einungis fengið fasta mánaðarlega greiðslu fyrir, sem var mjög lág í hinu stóra samhengi. Eftir að hafa farið yfir málið var ljóst að tekjutap umsjónarmannsins var töluvert og kjör hans lakari en samkvæmt kjarasamningi. Í kjölfarið var sent erindi á stofnunina en öllum leiðréttingum á launum var hafnað. Taldi heilbrigðisstofnunin að umsjónarmaðurinn hafi samið með þessum hætti og þó nýr starfsmaður hafi samið með öðrum og betri hætti væri það ekki vandamál stofnunarinnar.
Starfsmannafélag Vestmannaeyja fór með málið alla leið og stefndi íslenska ríkinu f.h. stofnunarinnar. Við meðferð málsins fyrir dómstólum lagði íslenska ríkið fram tilboð um sættir og samþykkti að greiða bætur vegna launataps umsjónarmannsins gegn því að málarekstrinum yrði hætt. Niðurstaðan varð því réttarsátt þar sem umsjónarmaðurinn fékk bætur fyrir launatap sitt og í henni fólst viðurkenning á því að stofnunin hafi hlunnfarið hann um árabil.